Erlent

Nouri al-Maliki einn á báti

Sheikh Khaled Al-Mulla Skýrði frá nýja sjía-bandalaginu á blaðamannafundi í gær.nordicphotos/AFP
Sheikh Khaled Al-Mulla Skýrði frá nýja sjía-bandalaginu á blaðamannafundi í gær.nordicphotos/AFP

Tveir stærstu flokkar sjía-múslima á Íraksþingi hafa myndað með sér bandalag, ásamt litlum flokkum súnní-múslima, en í andstöðu við Nouri al-Maliki, forsætisráðherra, sem sjálfur er sjía-múslimi og hefur til þessa notið stuðnings flokka sjía á þinginu.

Þetta þýðir að al-Maliki þarf að afla sér stuðnings meðal súnní-múslima á þinginu, eigi hann að geta setið áfram í embættinu eftir þingkosningar í janúar. Dawa, flokkur al-Malikis, gekk ekki til liðs við þetta nýja bandalag vegna þess að hinir flokkarnir vilja ekki fyrirfram tryggja stuðning þess við að hann verði áfram forsætisráðherra.

Nýja bandalagið nefnist Íraska þjóðbandalagið. Að því standa bæði Íslamsráðið, sem er stærsti flokkur sjía á þingi, og flokkur herskáa klerksins Muqtada al-Sadrs. Báðir þessir flokkar hafa náin tengsl við stjórnvöld í Íran.

Ná þetta nýja bandalag góðum árangri í kosningunum í janúar má búast við auknum áhrifum Íransstjórnar í Írak, tæpu ári áður en Bandaríkjaher ætlar að vera alfarinn frá Írak.

Til þess að vega á móti þessu þyrfti al-Maliki að leggja enn frekari áherslu á vilja sinn til að ná samkomulagi við bæði súnnía og kúrda.- gb




Fleiri fréttir

Sjá meira


×