Innlent

Landeyjahöfn skapar ný tækifæri

Rangæingar sjá fram á geta teflt fram sameiginlegu fótboltaliði með Vestmannaeyingum og sótt skóla út í Eyjar með tilkomu Landeyjahafnar næsta sumar. Til að skoða betur tækifærin sem gefast með nýju höfninni hafa sveitarfélög á fastalandinu nú sett á stofn samráðsnefnd með Eyjamönnum.

Hin nýja Landeyjahöfn verður ekki aðeins bylting fyrir Eyjamenn. Á Hvolsvelli og öðrum byggðum Rangárvallasýslu sjá menn fram á mikla breytingu. Elvar Eyvindsson, sveitarstjóri Rangárþings eystra, segir að í raun séu 4.000 manns að bætast inn á svæðið og það hljóti að auka slagkraftinn.

Menn sjá fram á að ferðaþjónusta muni eflast. Það sé öruggt að ferðamönnum muni fjölga, sem heimsækja Eyjar og þar með um leið Rangárvallasýslu.

Sveitarstjórinn sér fyrir sér að íbúar á Suðurlandi sæki skóla í Eyjum. Þar sé til dæmis ágætur framhaldsskóli og vélfræðibraut. Og Eyjamenn geta auðvitað líka sótt margt upp á fastalandið. Margir þeirra eigi þar sumarhús. Samstarf fyrirtækja á milli lands og Eyja eigi einnig eftir að vaxa. Þar séu möguleikar, til dæmis í matvælaiðnaði. Menn gætu jafnvel unnið á öðrum staðnum en sofið á hinum.

Til að þetta geti orðið þurfi ferjan hins vegar að ganga þétt og reglulega. Tíðni ferða þurfi að fara að skýrast og einnig fargjöld svo menn geti farið að skipuleggja sig og hugsa lengra.

Yfirverkstjóri Suðurverks í Landeyjahöfn, Helgi B. Gunnarsson, er fæddur og uppalinn í Eyjum en hefur undanfarin 30 ár búið í Rangárvallasýslu. Hann sér fram á félagsleg samskipti fólks muni aukast. Margir Eyjamenn séu ættaðir af Suðurlandinu og menn geti notað ferjuna til að skreppa í kaffi til vina og ættingja.

Sveitarsjórinn bendir á að Rangæingar eigi líka öflug íþróttafélög sem væri hægt að samnýta með Eyjamönnum. Þannig séu líka til góðir fótboltamenn á Suðurlandinu sem gætu orðið liðtækir.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×