Innlent

Fjárlögin samþykkt: Hallinn næstum 100 milljarðar

Heimir Már Pétursson skrifar
Steingrímur J. Sigfússon mælti fyrir frumvarpinu sem samþykkt var í dag.
Steingrímur J. Sigfússon mælti fyrir frumvarpinu sem samþykkt var í dag.

Fjárlög voru afgreidd með tæplega 100 milljarða halla á Alþingi í dag. Stjórnarandstaðan segir frumvarpið eins og illa skipulagða óvissuferð inn í framtíðina og vegið sé að velferðarkerfi þjóðarinnar. Fjármálaráðherra segir að tekist hafi að helminga halla ríkissjóðs sem geti orðið með afgangi árið 2013.

Fjárlög fyrir árið 2010 voru afgreidd með tæplega 100 milljarða halla á Alþingi í morgun með 33 atkvæðum stjórnarliða en 26 þingmenn stjórnarandstöðunnar sátu hjá við afgreiðslu frumvarpsins. Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra sagðist telja niðurstöðu fjárlaga ásættanlega miðað við erfiðar aðstæður. Tekist hafi að helminga halla fjárlaga frá árinu 2008, sem þá var 215 milljarðar en hallinn á árinu sem er að líða yrði um 160 milljarðar.

Þór Saari fulltrúi Hreyfingarinnar í fjárlaganefnd sagði útlit fyrir að ríkisstjórnin félli ofan í djúpa endann á sundlauginni eins og bæjarstjórn Álftanes sem kæmist ekki upp úr sinni sundlaug.

Bjarni Beneditksson formaður Sjálfstæðisflokksins sagði ríkisstjórnina hafa þagað þunnu hljóði um skattaáform sín í kosningabaráttunni en síðan komið í bakið á fólki. Hann sagði einnig allt útlit fyrir að afkoma ríkissjóðs yrði verri en frumvarpið gerir ráð fyrir.














Fleiri fréttir

Sjá meira


×