Skoðun

Samkeppni hraðar endurreisn

Ármann Kr. Ólafsson skrifar um samkeppni

Í kjölfar bankarhrunsins er mikilvægt að hefja strax endurreisn á íslensku viðskipta- og efnahagslífi. Til að það sé mögulegt á sem stystum tíma verður að ríkja öflug samkeppni hér á landi. Af þeim sökum lagði ég fram þingsályktunartillögu fyrir jól um heildarendurskoðun á samkeppnisumhverfi íslenskra fyrirtækja.

Því miður er mikil hætta á að ríkjandi ástand ýti undir samþjöppun og hún verði enn meiri en við höfum upplifað á undanförnum árum. Slíkt getur dregið úr hraða endurreisnarinnar. Í skýrslu Samkeppniseftirlitsins nr. 2/2008, Öflug uppbygging - opnun markaða og efling atvinnustarfsemi er greint frá reynslu annarra ríkja af þýðingu samkeppni í efnahagskreppum og hvaða lærdóm megi draga af henni. Sú reynsla og rannsóknir í hagfræði sýna að aðgerðir til að viðhalda og efla samkeppni stuðla að hraðari endurreisn atvinnulífsins.

Ljóst er að samkeppnisumhverfi íslenskra fyrirtækja er að gallað. Hringamyndun og krosseignarhald hefur fengið að þrífast hér á landi, fákeppni hefur blómstrað og fyrirtæki hafa misbeitt markaðsráðandi stöðu sinni um áraraðir. Þetta sést glöggt þegar horft er til smásöluverslunar, matvöruiðnaðarins, fjölmiðla- og fjarskiptamarkaðarins, samgöngufyrirtækja og lyfjamarkaðarins svo eitthvað sé nefnt.

Við megum engan tíma missa. Krónan hefur fallið hratt og verðhækkanir fylgt í kjölfarið. Nauðsynlegt er að þær gangi hratt til baka þegar styrkingarferli krónunnar verður raunverulegt. Ef fákeppni ríkir á markaðnum myndast mikil tregða til verðlækkana eins og sagan sýnir. Við slíku verður að sporna og má ljóst vera að forsenda þess er öflugri samkeppnismarkaður.

Mörg úrræði eru til að efla samkeppni innan núverandi löggjafar. Önnur kalla á að reglu- og lagaumgjörð fyrirtækjanna eða samkeppnismarkaða sé breytt og úrræði Samkeppniseftirlitsins efld. Sérstaka áherslu þarf að leggja á að hlúa að og bæta rekstrarumhverfi lítilla og meðalstórra fyrirtækja, m.a. með því að ryðja úr vegi hindrunum sem takmarka möguleika nýrra fyrirtækja til að komast inn á samkeppnismarkaði (aðgangshindranir), eða möguleika smærri fyrirtækja til að vaxa við hlið stærri fyrirtækja.

Höfundur er alþingismaður.






Skoðun

Sjá meira


×