Innlent

Ekkert bitastætt

Björn Zoëga, forstjóri Landspítalans.
Björn Zoëga, forstjóri Landspítalans. Mynd/Pjetur
Björn Zoëga, forstjóri Landspítalans, segir að annarri umræðu fjárlaga á Alþingi hafi ekki verið neitt bitastætt fyrir spítalann. Þrátt fyrir það bindi hann enn vonir við að tekið verði tillit til þess mikla gengiskostnaðar sem spítalinn hafi orðið fyrir umfram forsendur fjárlaga þannig að hann verði ekki látinn bera allan þann halla á þessu ári.

„Það vekur athygli að á nokkrum stöðum í kerfinu eru fjárlagaliðir hækkaðir vegna gengisáhrifa en spítalinn fær engar slíkar hækkanir," segir Björn í vikulegum pistli sínum á heimasíðu Landspítalans.

Björn segir að undarlegast dæmið snúi að Sjúkratryggingum Íslands sem fái eðlilega uppfærslu á kostnaði vegna gengisáhrifa á svokölluð S-merkt lyf. „Þessi lyf eru að langmestu leyti afgreidd frá LSH en mörg S-merkt lyf eru einnig gefin inniliggjandi sjúklingum á spítalanum og þá borguð beint af fjárheimildum spítalans en ekki Sjúkratrygginga. Þannig að þessi viðbótarfjármögnun vegna gengisáhrifa nær ekki til spítalans."

Björn vonar að tekið verði tillit til þessa mikla gengiskostnaðar sem Landspítalinn hefur orðið fyrir umfram forsendur fjárlaga og að spítalinn verði ekki látinn bera allan þann halla á þessu ári. „Slíkar byrðar munu leiða til enn meiri aðgerða í fjármálum og skerðingar á þjónustu á næsta ári, sem ekki er á bætandi."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×