Innlent

Meðalferðatími styst um þrjár til fjórar mínútur

ánægður Gísli Marteinn segir að vissulega hafi kreppan sitt að segja og hún hafi dregið úr umferð, en skýri hins vegar ekki breyttar ferðavenjur.Fréttablaðið/anton
ánægður Gísli Marteinn segir að vissulega hafi kreppan sitt að segja og hún hafi dregið úr umferð, en skýri hins vegar ekki breyttar ferðavenjur.Fréttablaðið/anton

Meðalferðatími á háannatíma í Reykjavík hefur styst um þrjár til fjórar mínútur fyrir hvern bíl á milli ára. Þetta er niðurstaða nýrra umferðartalninga umhverfis- og samgönguráðs borgarinnar, sem fram fóru í nóvember.

Þrátt fyrir þetta er algengur ferðatími milli úthverfa og miðborgar Reykjavíkur 28 til 38 mínútur fram og til baka. Það þýðir að Reykvíkingar eyða tveimur til þremur klukkustundum á viku í bílum sínum á leið milli bæjarhluta.

Ferðavenjukönnun sýnir einnig að færri ferðast nú einir í bílum sínum en áður. Í fyrra ferðuðust 76 prósent ein í bíl, miðað við 71 prósent nú. Hin 29 prósentin fara til vinnu ýmist sem farþegar í bíl, í strætó eða með öðrum hætti. Mest hefur þeim fjölgað sem ganga eða hjóla til vinnu. Í fyrra nýttu níu prósent þá kosti, en fjórtán prósent í ár. „Auðvitað hefur kreppan heilmikil áhrif,“ segir Gísli Marteinn Baldursson, formaður umhverfis- og samgönguráðs Reykjavíkur.

„Það eru færri á leiðinni til vinnu út af atvinnu- og efnahagsástandinu,“ bætir hann við.

Kreppan skýri hins vegar ekki nema að litlu leyti breyttar ferðavenjur. „Fjölbreytilegri ferðamátar gera það að verkum að þeir sem þurfa að fara á bílum til vinnu komast greiðar leiðar sinnar,“ segir Gísli. Það spari hverjum og einum sem áður segir þrjár til fjórar mínútur að meðaltali. „Í heildina eru það mörg þúsund vinnustundir á hverjum einasta degi,“ segir hann.

„Við erum ófeimin við að þakka þetta átakinu Grænu skrefunum sem ganga einmitt út á fjölbreytilegri ferðamáta þannig að allir komist leiðar sinnar örugglega og hratt á þann hátt sem þeir vilja, hvort sem það er bíll, strætó, reiðhjól eða gangandi.“- sh




Fleiri fréttir

Sjá meira


×