Innlent

Í gæsluvarðhaldi vegna hrottalegrar nauðgunar

Hæstiréttur taldi rétt að maðurinn sætti gæsluvarðhaldi til 10. júlí.
Hæstiréttur taldi rétt að maðurinn sætti gæsluvarðhaldi til 10. júlí. Mynd/ Valli

Karlmaður hefur verið úrskurðaður í gæsluvarðhald til 10. júlí vegna meintrar nauðgunar í Reykjavík. Hæstiréttur staðfesti í gær gæsluvarðhaldsúrskurð Héraðsdóms Reykjavíkur.

Til rannsóknar hjá lögreglu er meint brot mannsins gegn konu sem hann hitti á skemmtistað í miðbænum þann 21. maí. Hún var þar að skemmta sér með vinnufélögum og hitti manninn sem bauð henni upp á drykk. Konan sagði að hann hafi stigið í vænginn við hana en hún ekki goldið í sömu mynt, verandi gift kona. Engu að síður hafi farið vel á með þeim.

Þegar skemmtistaðnum var lokað hitti hún manninn fyrir utan staðinn. Þau hafi tekið leigubíl saman úr miðbænum þar sem að bíl hans hefði verið stolið. Þau hafi svo farið út úr leigubílnum á sama stað og ákærði reynt að kyssa hana. Hún hafi þá ýtt honum í burtu með þeim orðum að hún væri gift en við hafi hann orðið „kolbrjálaður".

Að sögn konunnar barði maðurinn höfði hennar utan í húsvegg, „dröslað" henni til og frá eftir mölinni, slitið nærbuxurnar af henni og muni hún eftir því að hafa séð hann halda utan um getnaðarliminn og ota honum að henni. Hann hafi snúið henni við og byrjað að hafa við hana samræði.

Skoðaðar voru upptökur úr öryggismyndavélum utan við skemmtistaðinn og á þeim hafi sést hve óstöðug hún væri á fótunum. Þá hafi einnig samkvæmt niðurstöðu rannsóknarstofu í lyfja- og eiturefnafræði mælst 2,20 ‰ í blóði Y og yfir 3 ‰ í þvagi og hafi hún því verið undir miklum áhrifum áfengis þegar blóðsýnið hafi verið tekið. Ljóst sé að hún hafi því síður verið í stakk búin til þess að sporna gegn verknaðinum en ella.

Eitt vitni bar svo við að hafa séð manninn bera konuna á bakinu. Einnig var tekin skýrsla af tveimur vitnum sem gengu fram á fórnarlambið illa til reika og með sjáanlega áverka.

Verði maðurinn fundinn sekur gæti hann átt yfir höfði sér allt að sextán ára fangelsi.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×