Viðskipti innlent

Sjóður Alcoa í Bandaríkjunum styrkir Háskólann á Akureyri

Samfélagssjóður Alcoa í Bandaríkjunum, Alcoa Foundation, veitti í dag Háskólanum á Akureyri 52.500 dollara styrk, eða 6,7 milljónir kr. til að hrinda úr vör nýsköpunarverkefni sem hefur hlotið heitið Norðursprotar.

Í tilkynningu segir að Alcoa á Íslandi, Háskólinn á Akureyri og Impra á Nýsköpunarmiðstöð efndu síðla vetrar til samstarfs um þetta verkefni, sem er ætlað að styðja nýsköpunarhugmyndir einstaklinga í atvinnuleit á Norðausturlandi og geta leitt til frekari atvinnutækifæra í landshlutanum.

Verkefnið Norðursprotar snýr að gerð viðskiptaáætlana og verður styrkurinn frá Samfélagssjóði Alcoa notaður til að standa undir kostnaði við gerð þeirra. Á þessu ári einbeitir sjóðurinn sér að verkefnum á Íslandi sem ýmist auðvelda einstaklingum lífið í kreppunni eða hvetja fólk til þátttöku í uppbyggjandi starfi og samveru.

Sjóðurinn veitti Hjálparstarfi kirkjunnar styrk í upphafi þessa árs, en hann rann til þeirra sem eiga um sárt að binda vegna atvinnumissis og kreppu. Að þessu sinni var ákveðið að styðja nýsköpun sem kann að leiða til fjölgunar starfa.

Samstarfið felur í sér að verkefnastjórar Impru á Nýsköpunarmiðstöð veita einstaklingunum ráðgjöf við framsetningu og ritun viðskiptaáætlana sinna og kennarar við viðskipta- og raunvísindadeild HA leggja einnig sitt af mörkum eftir því sem þörf krefur. Þá verður matsnefnd sem útdeilir styrknum skipuð fólki frá Háskólanum á Akureyri, Impru á Nýsköpunarmiðstöð og Alcoa Fjarðaáli.

Það var Tómas Már Sigurðsson, forstjóri Alcoa á Íslandi sagði við afhendinguna að það væri sérstakt ánægjuefni að sjóðurinn hefði ákveðið að styrkja nýsköpun og uppbyggingu á Norðausturlandi með þessum hætti og sagðist vona að framlagið stuðlaði að frekari uppbyggingu svæðisins.

Þorsteinn Gunnarsson, sem lætur af starfi rektors við Háskólann á Akureyri um mánaðamótin eftir 15 ára farsælan feril, sagði styrkinn koma í mjög góðar þarfir við uppbyggingu atvinnulífs á svæðinu sem hefur orðið fyrir áföllum í kjölfar efnahagshrunsins.

 










Fleiri fréttir

Sjá meira


×