Viðskipti innlent

Portfarma gerir samning upp á hundruð milljóna

Íslenska samheitalyfjafyrirtækið Portfarma hefur skrifað undir samning við Grindeks, eitt stærsta lyfjasölufyrirtæki í Eystrasaltsríkjunum, um dreifingu og sölu á lyfjum fyrirtækisins í nær öll apótek í Eistlandi, Lettlandi og Litháen. Verðmæti samningsins hleypur á hundruðum milljóna íslenskra króna á ári.

Í tilkynningu segir að einnig sé unnið að því í samvinnu við Grindeks að koma á dreifingu til fleiri ríkja þar í grennd. Samningurinn þýðir miklar gjaldeyristekjur fyrir Portfarma og um leið íslensku þjóðina.

Portfarma var stofnað árið 2005 og er nú þegar komið með markaðsleyfi fyrir á þriðja tug lyfja á Íslandi. Fyrirtækið gerir ráð fyrir því að vera komið með rúmlega 100 lyf á markað hérlendis innan skamms. Hjá fyrirtækinu starfa 7 manns, auk fjölda verktaka en framleiðslan fer fram í 7 löndum.

Ekki virðist sem allir geri sér grein fyrir því að samheitalyf eru fullkomlega sambærileg við frumlyf hvað varðar gæði og virkni efnanna. „Heilbrigðisstarfsmenn eru meðvitaðir um þetta en ekki er víst að almenningur sé það. Sem betur fer er þó mikil vakning um notkun samheitalyfja," segir Olgeir Olgeirsson, forstjóri Portfarma í viðtali við Lyfjatíðindi.

„Tilkoma Portfarma á íslenskan markað hefur stuðlað að lægri lyfjaskostnaði. Aukin samkeppni á milli lyfjaframleiðenda og meira framboð af ódýrari samheitalyfjum hefur lækkað lyfjakostnað og fastlega má gera ráð fyrir að kostnaður sjúklinga sem og Sjúkratryggingasjóðs væri mun hærri ef aukið framboð samheitalyfja frá aðilum eins og Portfarma hefðu ekki komið til. Samfélagslegur ávinningur er því mikill, en í öllum tilfellum hefur það gerst að þar sem Portfarma hefur sett lyf markað hefur verð á samskeppnislyfjum lækkað, yfirleitt um tugi prósenta," segir í tilkynningunni.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×