Viðskipti innlent

Forstjóri Nýsis einnig regluvörður félagsins

Ingimar Karl Helgason skrifar
Höskuldur Ásgeirsson.
Höskuldur Ásgeirsson.

Forstjóri Nýsis var regluvörður félagsins. Fjármálaeftirlitinu er ekki kunnugt um nein dæmi um að forstjóri sé jafnframt regluvörður, enda þótt upplýsingar um Nýsisforstjórann liggi á heimasíðu eftirlitsins.

Regluvörður á meðal annars að halda lista yfir innherja, fólk sem hefur aðgang að verðmyndandi upplýsingum félaga sem gefa út verðbréf, skráðra félaga, og hafa auga með viðskiptum þeirra. Hann þjónar í raun sem nokkurs konar innra eftirlit fyrirtækisins.

Fyrirtæki eiga að tilkynna um regluvörðinn til Fjármálaeftirlitsins. Þetta er gert til að eftirlirlitið geti metið hvort hann sé nógu sjálfstæður í störfum sínum.

Fréttamaður rak augun í að Höskuldur Ásgeirsson, fyrrverandi forstjóri Nýsis, var annan júlí í fyrra, skráður regluvörður félagsins. Félagið var umsvifamikið í fasteignarekstri og átti meðal annars hlut í tónlistar- og ráðstefnuhúsi. Auk þess gaf félagið út skuldabréf fyrir milljarða.

Fréttastofa sendi Fjármálaeftirlitinu fyrirspurn þar sem spurt var hvort eftirlitið gerði athugasemd við að forstjóri sé jafnframt regluvörður. Í svari FME segir að því sé ekki kunnugt um tilvik þar sem tilkynnt hafi verið að forstjóri félags sé jafnframt regluvörður þess. Ætla megi að slíkt fyrirkomulag veki spurningar um hæfi regluvarðar og sjálfstæði hans gagnvart stjórnendum félagsins. Því mætti draga verulega í efa að slíkt fyrirkomulag fullnægði kröfum Fjármálaeftirlitsins og reglum um sjálfstæði og hlutverk regluvarðar.












Fleiri fréttir

Sjá meira


×