Viðskipti innlent

Veruleg svartsýni meðal stjórnenda fyrirtækja

Niðurstöður ársfjórðungslegrar könnunar Capacent Gallup meðal stærstu fyrirtækja landsins liggja nú fyrir. Telja stjórnendur 97% þeirra fyrirtækja sem svara könnuninni að aðstæður séu nú mjög slæmar (62%) eða frekar slæmar (35%), en ekkert fyrirtæki telur þær góðar.

Þetta kemur fram í nýjasta fréttabréfi Samtaka atvinnulífsins. Þar segir að í síðustu könnun sem gerð var í marsmánuði örlaði á bjartsýni um að aðstæður í efnahagslífinu myndu fara batnandi þegar horft væri hálft til eitt ár fram í tímann. Sú bjartsýni hefur nú að mestu horfið og telur meirihluti fyrirtækjanna (56%) að aðstæður verði verri eftir 6 mánuði, en aðeins 12% að þær verði heldur betri.

Að öðru leyti lýsa niðurstöður könnunarinnar að þessu sinni að mestu ámóta slæmri stöðu í atvinnulífi og fram kom í samsvarandi könnunum í mars 2009 og desember 2008. Nægt framboð vinnuafls er til staðar hjá rösklega 90% þeirra fyrirtækja sem svara könnuninni og fyrirtæki eru almennt ekki að ráða fólk til starfa. Um 90% þeirra fyrirtækja sem svara könnuninni telja að á næstu sex mánuðum muni starfsmannafjöldi hjá þeim standa í stað (54%) eða fækka (36%).

Það vekur að vísu athygli að fjórðungur fyrirtækja í fjármála- og tryggingastarfsemi telja sig skorta starfsfólk og um fimmtungar býst við að ráða fólk á næstu sex mánuðum. Hér verður þó að hafa í huga að fjármálafyrirtæki eru almennt undir miklu álagi um þessar mundir, starfsemi þeirra hefur breyst mikið á skömmum tíma og flest hafa þurft að segja upp starfsfólki.

Er því skiljanlegt að sum fyrirtækjanna telji sig skorta starfsfólk. Þá hafa a.m.k. sum smærri og miðlungsstórra fyrirtækja í greininni aukið starfsemi á vissum sviðum og skýrir það væntanlega að mestu áform um fjölgun.

Hafa þarf í huga að hlutfallstölur í könnuninni byggjast á fjölda fyrirtækja.

Um 40% fyrirtækja búast við að eftirspurn á innlendum markaði muni enn dragast saman á næstu sex mánuðum, en aðeins 18% að hún muni aukast.

Það eina sem má teljast jákvætt í þessari könnun er að stjórnendur meta horfur á erlendum mörkuðum ívið skárri en í mars, en þó er óvíst hvort um marktæka vísbendingu er þar að ræða.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×