Innlent

Víðtækustu skattabreytingar í 20 ár

Birgir Ármannsson.
Birgir Ármannsson. Mynd/Anton.
Birgir Ármannsson, þingmaður Sjálfstæðisflokks, segir að trúlega hafi skattar á heimili og fyrirtæki aldrei verið hækkaðir jafn mikið í einni lotu líkt og kveðið er á um í skattafrumvörpum ríkisstjórnarinnar. Breytingarnar séu þær mestu í 20 ár.

Níu frumvörp voru afgreidd sem lög frá Alþingi í gær en þingfundi lauk laust fyrir klukkan hálf þrjú í nótt. Mikill fjöldi mála bíður enn umfjöllunar Alþingis en fastlega er búist við því að fundað verði á milli jóla og nýárs.

Alþingi samþykkti í gær frumvarp ríkisstjórnarinnar um umhverfis og auðlindarskatta, um breytingar á lögum um fjármálafyrirtæki og raforkulög sem kveður á um frestun gildistöku ákvæði um aðgreiningu samkeppnis- og sérleyfisstarfsemi. Umræðu um frumvarp um ráðstafanir í skattamálum og frumvarp um tekjuöflun ríkissjóðs verður haldið áfram eftir helgi.

„Lauslega áætlað fela þessi þrjú frumvörp í sér auknar skattaálögur upp á 44 milljarða króna á ári. Í júní síðastliðnum voru lögfestar skattahækkanir sem áætlanir fjármálaráðuneytisins gerðu ráð fyrir að myndu skila ríkissjóði auknum tekjum upp á um 20 milljarða króna," segir þingmaðurinn í tilkynningu.

„Óhætt er að fullyrða, að hér um að ræða víðtækustu breytingar í skattamálum í meira en 20 ár og trúlega finnast engin dæmi þess hér á landi, a.m.k. ekki á síðustu áratugum, að skattar á heimili og fyrirtæki hafi verið hækkaðir jafn mikið í einni lotu," segir Birgir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×