Innlent

Ekkert verið talað við okkur

Eiríkur Jónsson.
Eiríkur Jónsson.

„Ég sem kennari vil koma því skýrt á framfæri að forysta Kennarasambandsins hefur ekkert rætt það við hinn almenna félagsmann hvernig hann vill bregðast við fjárhagsstöðu sveitarfélaga. Afstaða forystunnar er alfarið á hennar ábyrgð og ég veit ekki til að hún sé bökkuð upp af félagsmönnum," segir Sigtryggur Arason, kennari á Akranesi.

Eiríkur Jónsson, formaður Kennarasambands Íslands (KÍ), sagði í frétt blaðsins í gær að sparnaðarhugmyndir sveitarfélaganna, sem nú eru til umfjöllunar í menntamálaráðuneytinu, væru afleitar og kæmu ekki til greina frá sjónarhóli KÍ.

Sigtryggur segir ljóst að kennarar, eins og aðrir, verði að leggja sitt af mörkum til samfélagsins.

„Þeir félagar mínir sem ég hef talað við hafa ekkert á móti því að axla einhverjar byrðar til að létta á sveitarfélögunum þar sem þeir búa. Sú hugmynd til dæmis að stytta skólaárið um tíu daga, og þar komi einhver launalækkun á móti, mælist ekki illa fyrir í mínum hópi. Það er svo með flesta í hinum ýmsu atvinnugreinum að þeir hafa tekið á sig kjaraskerðingu í formi styttri vinnutíma og viðveru á vinnustað. Kennurum ætti ekki að vera vorkunn að taka þátt í því," segir Sigtryggur.- shá






Fleiri fréttir

Sjá meira


×