Viðskipti innlent

Óttast svipuhögg ríkisstjórnarinnar

Höskuldur Kári Schram skrifar

Stjórnarandstaðan óttast að fjárlaganefnd Alþingis þurfi að sitja undir svipuhöggum ríkisstjórnarinnar til að flýta fyrir afgreiðslu Icesave málsins. Nefndinni er ætlað að fara yfir fjölmörg álitamál á stuttum tíma.

Þingmenn hafa nú rætt icesave frumvarp ríkisstjórnarinnar í tæpar eitt hundrað klukkustundir. samkvæmt samkomulagi ríkisstjórnarinnar og stjórnarandstöðuflokkanna á að ljúka annarri umræðu á þriðjudag en þá fær fjárlaganefnd málið aftur til umfjöllunar.

Stjórnarandstaðan fékk það í gegn að fjárlaganefnd skoði 16 álitamál sem snerta meðal annars skuldastöðu og greiðslugetu ríkissjóðs. Þá verður ensk lögfræðistofa ráðin til að kanna lagalegar hliðar Icesave samningsins. Stjórnarflokkarnir telja að hægt verði að ljúka þessari vinnu á nokkrum dögum.

„Ef að málið kemur nefndarinnar aftur þá setjumst við yfir hvaða óskir og væntingar um málsmeðferð og verðum að vinna úr því en markmiðið er að klára málið fyrir jól," segir Guðbjartur Hannesson, formaður fjárlaganefndar.

Stjórnarandstaðan óttast að ríkisstjórnin reyni að keyra málið í gegnum nefndina.

„Það er allavega alveg ljóst að hún verður að fá tíma fjárlaganefndin þetta eru fjölmörg álitaefni sem að við höfum verið að benda á að þurfi að fara yfir. Þá verður fjárlaganefndin að fá þann tíma og það svigrúm sem að við þurfum til þess að fara yfir þessa þætti og ég vona innilega að fjárlaganefndin þurfi ekki að sitja undir svipuhöggum frá ríkisstjórninni til að klára málið," segir Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, varaformaður Sjálfstæðisflokksins.

„Auðvitað væri eina vitið að taka nokkrar vikur í þetta því þetta eru mjög stórar spurningar. ég vona bara að áherslan hjá nefndinni verði að komast til botns í málinu frekar en að horfa á einhvern tiltekinn tímaramma. því við höfum alveg tíma til að skoða málið," segir Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×