Viðskipti innlent

Iceland Express færir sig um set til Gatwick

Frá vinstri: Matthías Imsland forstjóri Iceland Express, Kristján Möller samgönguráðherra, Ian Whitting sendiherra Breta á Íslandi og Björn Óli Hauksson flugvallarstjóri klippa á borðann nú í morgun til marks um fyrsta flug félagsins til London-Gatwick.
Frá vinstri: Matthías Imsland forstjóri Iceland Express, Kristján Möller samgönguráðherra, Ian Whitting sendiherra Breta á Íslandi og Björn Óli Hauksson flugvallarstjóri klippa á borðann nú í morgun til marks um fyrsta flug félagsins til London-Gatwick.

Iceland Express flýgur frá og með 1. maí til Gatwick flugvallar í London í stað Stansted. „Við höfum um skeið verið að velta fyrir okkur að færa okkur yfir til Gatwick, þaðan er styttra í miðborgina og að mörgu leyti þægilegra fyrir okkar farþega," segir Matthías Imsland, forstjóri Iceland Express.

Matthías bendir á að tímasetningin að hefja flugið nú, sé líka einkar hagstæð, því framundan sé annatími í fluginu, bókanir hafi aldrei verið fleiri og það að lenda á Gatwick dragi síst úr. „Við erum mjög ánægð og lítum svo á, að nú sé að hefjast nýr kafli í sögu félagsins," segir Matthías.

Í tilkynningu frá Iceland Express segir að félagið verði með aðstöðu á South terminal. Gatwick er vel staðsettur flugvöllur rétt sunnan við London og þaðan er flogið til allra átta, enda fljúga flugfélög á borð við easyJet, British Airways og US Airways þaðan. „Möguleikar farþega félagsins aukast því enn á fjölbreyttu og ódýru tengiflugi til allra heimshorna. Það eru því orð að sönnu, að leiðir liggi til allra átta, eins og segir í dægurlagatextanum - frá Gatwick," segir ennfremur.

Iceland Express mun fljúga til London-Gatwick átta sinnum í viku. Um leið falla niður ferðir félagsins til Stansted flugvallar.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×