Erlent

Rosa flott strætóskýli

Óli Tynes skrifar

Vinirnir Reg Crampton og Colin Collier sem eru sjötíu og eins og sjötíu og fimm ára gamlir, fylgdust áhugasamir með þegar starfsmenn vegagerðarinnar settu upp glæsilegt strætisvagnabiðskýli í smábænum Ryhill í Suður-Yorksskíri.

Skýlið var með ljósabúnaði og flottum sætum enda kostaði það 10 þúsund sterlingspund, eða sem svarar tveim milljónum íslenskra króna.

Þegar skýrlið var komið upp spurðu starfsmennirnir hróðugir hvort þeim litist ekki vel á það. Og þeir félagar héldu það nú.

-Já, nú getið þið verið í skjóli og birtu meðan þið bíðið eftir strætó.

-Tja, sagði Colin, hann hætti nú að ganga hingað fyrir rúmu ári.

Talsmaður vegagerðarinnar sagði í samtali við blaðið Daily Mail að skýlið yrði flutt eitthvað annað á næstunni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×