Erlent

Bangsi bílaþjófur gripinn glóðvolgur

Óli Tynes skrifar
Augu bílaþjófsins voru glóðu eins og í fjandanum sjálfum.
Augu bílaþjófsins voru glóðu eins og í fjandanum sjálfum. Mynd/Lögreglan í Kólóradó

Lögreglan í Florissant í Kólóradó fylki var snögg á vettvang þegar hún fékk tilkynningu um að rumur einn mikill væri að stela bíl fyrir framan íbúðarhús í bænum.

Hjónin sem áttu bílinn höfðu vaknað við að þjófavarnarkerfi hans fór í gang og sáu gríðarlega þrekvaxinn mann vera að koma sér fyrir undir stýri.

Þegar lögreglumenn nálguðust bílinn í myrkrinu með byssurnar í hönd, sáu þeir að þjófurinn var vissulega þrekvaxinn. Og þeim brá verulega við að sjá að augu hans voru glóandi eins og í fjandanum sjálfum.

Hann gerði þó enga tilraun til að aka á brott heldur sat bara og horfði á þá. Og þegar nær kom sáu þeir að þetta var hinn myndarlegasti bangsi.

Bjarndýr fara nú að leggjast í híði og eru dugleg við að safna á sig spiki fyrir svefninn langa. Þau éta allt sem þau ná í.

Bangsi bílaþjófur hafði fundið matarlykt úr bílnum, opnað hurðina og stungið sér inn. Hurðin lokaðist hinsvegar á eftir honum og hann kunni ekki að opna innanfrá.

Lögreglumennirnir leystu vanda hans með því að opna hurðina fyrir hann. Bangsi var fljótur að stinga sér út og sást síðast á hraðferð til fjalla.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×