Viðskipti innlent

Fréttaskýring: Norska krónan, kostir og gallar

Friðrik Indriðason skrifar: skrifar

Yfirlýsingar tveggja formanna norsku stjórnarflokkanna um að þær séu opnir fyrir því að koma á fót myntsambandi við Ísland hafa vakið mikla athygli ekki hvað síst í Noregi. En hverjir væru kostir og gallar slíks samstarfs fyrir Íslendinga?

Tveir möguleikar eru til að koma slíku samstarfi á. Annarsvegar að festa gengi krónunnar við norsku krónuna og hinsvegar að Ísland skipti einfaldlega sínum krónum út fyrir norskar.

Þeir sérfræðingar sem Fréttastofa ræddi við voru nokkuð á einu máli um að síðari möguleikinn, það er að skipta á íslenskum fyrir norskar væri mun raunhæfari. Ekki væri góð reynsla af fastgengisstefnu auk þess að hún gæti sett verulegar byrðar á norska seðlabankann (Noregsbanka) sem myndi bera ábyrgð á því að stefnan héldi.

Eins og margir sérfræðingar hafa bent á undanfarnar vikur er það tiltöluleg auðvelt að skipta út íslenskum krónum fyrir annan gjaldmiðil ef við ætluðum að gera slíkt einhliða. Það er næstum jafnauðvelt ef við gerum það í samráði við viðkomandi þjóð svo framarlega sem báðir aðilar koma sér saman um á hvað gengi slíkt skipting ætti sér stað.

Kostirnir fyrir Ísland eru mun meiri en gallarnir. Nefna má að við þyrftum ekki að hafa áhyggjur af því að afsala okkur stjórn á auðlindum okkar eins og fiskimiðunum. Við fengjum mjög fljótlega svipað vaxtastig og er í Noregi þar sem stýrivextir eru nú 3%. Og við héldum seðlabanka okkar sem nokkurskonar útibúi frá Noregsbanka.

Þá má nefna að traust á fjármálakerfi Íslands myndi líklegast byggjast upp að nýju á margföldum hraða m.v. að reynt yrði að halda krónunni áfram sem gjaldmiðli og sækja ekki um aðild að Evrópusambandinu.

Gallarnir væru einkum að Ísland hefði ekki lengur sjálfstæða peningamálastefnu heldur væri hún meir og minna í höndum bankastjórnar Noregsbanka. Jón Bjarki Bentsson hagfræðingur hjá greiningu Glitnis bendir einnig á að olíuverð ráði miklu um vaxtastig, gengi hlutabréfa og efnahag Noregs. „Við gætum því lent í að vaxtastigið sveiflaðist úr takti við okkar efnahag," segir Jón Bjarki.

Annar galli er að norska krónan er tiltölulega lítill gjaldmiðill á heimsvísu og því næmari fyrir ýmsum ytri áföllum, eða áhlaupum, en stærri gjaldmiðlar. Myndum við ekki fara varhluta af slíku fremur en Norðmenn.

Þá ber að taka það fram að Norðmenn eru ekki að bjóða okkur upp í dans með myntsamstarf af einskærri góðmennsku og frændsemi. Eins og Fréttastofa greindi frá í morgun segir hagfræðiprófessorinn Öystein Noreng að Norðmenn þurfi að tryggja þjóðarhagsmuni sína í framtíðinni og það verði best gert með því að viðhalda stöðugleika á Íslandi. Nánara samstarf þjóðanna myndi efla Noreg á alþjóðavettvangi nú þegar norðurhöfin eru að opnast fyrir siglingum og nýtingu auðlinda á svæðinu.

Þá eru margir Norðmenn sem mega ekki hugsa þá hugsun til enda að Ísland gangi í Evrópusambandið því þá yrðu þeir skildir eftir á eyðiskeri í EES með Liechtenstein, þjóð sem hefur fleiri hlutafélög en íbúa. Þar að auki myndi innganga Íslands í ESB valda því að samkeppnisstaða landanna á ýmsum sviðum sjávarútvegs myndi skekkjast.

Það eru ekki allir í Noregi jafnhrifnir af hugmyndinni um myntsamstarf við Ísland. Þannig segir Jan Tore Klovland prófessor hjá Handelshöyskolen að Norðmenn græði ekkert á slíku og að slíkt samstarf væri eins og að synda með grjót bundið við annan fótinn.

Og ef marka má síðustu fréttaskeyti eru yfirmenn Noregsbanka heldur ekki ýkjahrifnir af þessum hugmyndum.

Málið mun væntanlega skýrast um helgina er Kristin Halvorsen fjármálaráðherra Noregs kemur í heimsókn til Íslands til að vera viðstödd 10 ára afmæli VG sem er systurflokkur hennar. Hún ætlar að ræða málið við Steingrím J. Sigfússon fjármálaráðherra.

Það vakti athygli á fyrsta blaðamannafundi ríkisstjórnarinnar hve Steingrímur brosti breitt er hann var spurður um fyrirhugaðan fund sinn og Halvorsen

 

 

 

 

 










Fleiri fréttir

Sjá meira


×