Erlent

Á að myrða Barack Obama?

Óli Tynes skrifar

Bandaríska leyniþjónustan rannsakar nú atkvæðagreiðslu sem sett var inn á Facebook um hvort rétt sé að myrða Barack Obama.

Fjórir svarmöguleikar voru gefnir á Facebook um hvort ætti að myrða forseta Bandaríkjanna. Þeir voru nei, kannski, já, og já ef hann sker niður sjúkrapeninga mína.

Barack Obama er einmitt þessa dagana að reyna að koma frumvarpi um opinberar sjúkratryggingar í gegnum þingið. Mikil hatursherferð hefur verið rekin gegn honum vegna þess.

Þessi skoðanakönnun var tekin út af Facebook um leið og stjórnendum var bent á hana. Ekki er vitað hvernig atkvæði höfðu fallið þegar hún var tekin út.

Bandaríska leyniþjónustan, Secret Service annast öryggisgæslu forsetans. Talsmaður leyniþjónustunnar sagði að þeir tækju alvarlega á öllum svona málum.

Verið er að rekja uppruna könnunarinnar og talsmaður Facebook segir að þeir muni aðstoða við þá rannsókn eftir bestu getu.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×