Innlent

Leyndarhjúpur umlykur ríkisstjórnina

Þingflokkur framsóknarmanna áréttar að ef fulltrúar Breta og Hollendinga sætta sig ekki að hluta eða í heild við lög um ríkisábyrgð vegna Icesave-samninganna, fellur ábyrgðin úr gildi og þeir fyrirvarar sem við hana eru. Þetta kemur fram í lögunum sjálfum.

Þingflokkurinn áréttar einnig, að einungis er hægt að breyta lögum á vettvangi Alþingis. Allar breytingar á forsendum ríkisábyrgðarinnar fella hana einnig úr gildi.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá þingflokki framsóknarmanna.

„Þingflokkurinn ítrekar þá skoðun sína að farsælast sé fyrir þjóðina og lyktir þessa máls að samið sé að nýju við Breta og Hollendinga enda samningarnir óaðgengilegir og mikill vafi á að almenningi beri að greiða þessar skuldir. Þingflokkurinn telur grundvallaratriði að færustu sérfræðingar þjóðarinnar og á alþjóðavísu leiði nýjar samningaviðræður.

Enn á ný einkennist málatilbúnaður ríkisstjórnarinnar af leyndarhjúp og pukri. Þingflokkur framsóknarmanna hafnar slíkum vinnubrögðum og krefst þess að meint tilboð Breta og Hollendinga verði gert opinbert nú þegar.

Loks ítrekar þingflokkur framsóknarmanna mikilvægi þess að ríkisstjórn Íslands fari opinberlega fram á skýringar á þeim óeðlilega drætti sem orðið hefur á afgreiðslu málefna Íslands hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum," segir í tilkynningunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×