Innlent

Trúnaðarbrestur milli ríkisstjórnar og stjórnarandstöðu

Forsætisráðherra segir að trúnaðarbrestur sé orðinn milli ríkisstjórnar og stjórnarandstöðu vegna viðbragða stjórnarandstöðunnar við óformlegum svörum Breta og Hollendinga í tengslum við Icesave. Ríkisstjórnin þurfi að endurmeta samskipti sín við stjórnarandstöðuna.

Forystumenn stjórnarflokkanna kynntu viðbrögð Breta og Hollendinga við fyrirvörum Alþings vegna Icesave fyrir fulltrúum stjórnarandstöðunnar í trúnaði í gær, áður en fjármálaráðherra greindi fjárlaganefnd svo frá málinu. Bretar og Hollendingar höfðu óskað eftir trúnaði íslenskra stjórnvalda um svörin enda væru þau óformleg. Sjálfstæðismenn og Framsóknarmenn sögðu strax í gær að viðbrögð Breta og Hollendinga þýddu að þeir hefðu hafnað fyrirvörum Alþingis.

Jóhanna segir einsdæmi að ríkisstjórn leiti til stjórnarandstöðu eins og ríkisstjórnin hafi gert í gær. Stjórnarandstöðu hafi verið gert grein fyrri stöðu mála áður en málið var rætt í ríkisstjórn og þingflokkum stjórnarflokkanna.

Jóhanna segir að í hugmyndum Breta og Hollendinga sé að verulegu leyti gengið að því sem Alþingi setti fram. Viðræðum sé hins vegar ekki lokið. Þingmönnum hafi verið ljóst að ef eitthvað stæði út af borðinu árið 2024 þyrfti að fara í viðræður við Breta og Hollendinga á ný.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×