Erlent

Bretar og Bandaríkjamenn deildu hart í Írak

Óli Tynes skrifar
Hernámsliðinu hefur ekki tekist að koma í veg fyrir mannskæðar hryðjuverkaárásir.
Hernámsliðinu hefur ekki tekist að koma í veg fyrir mannskæðar hryðjuverkaárásir.

Þótt það hafi farið leynt á sínum tíma virðist sem samskipti Bandaríkjamanna og Breta hafi ekki verið árekstralaus eftir innrásina í Írak.

Opinber rannsókn er að hefjast á aðdraganda stríðsins í Bretlandi og hvað varð til þess að Bretar tóku þátt í innrásinni.

Býsnin öll af skjölum hafa verið dregin fram vegna þessa og breska blaðið Daily Telegraph hefur komist yfir einhver þeirra.

 

Á öndverðum meiði

Þar kemur meðal annars fram að Bretar og Bandaríkjamenn voru gersamlega á öndverðum meiði í mörgum atriðum, sérstaklega um hvernig skyldi staðið að málum eftir að stríðið var unnið og hersetan hófst.

Venjulega voru það Bandaríkjamenn sem höfðu sitt fram, enda voru þeir með yfirstjórn yfir öllu batterínu.

Og fannst ekki að þeir þyrftu að ráðgast við neinn ef marka má orð J.K Tanners ofursta sem sagði að það væri ekki í eðli bandarískra embættismanna að ræða málin.

Neitaði að hlýða skipunum

Yfirmaður bresku hersveitanna Andrew Stewart hershöfðingi sagði að hann hefði eytt talsvert miklu af tíma sínum í að víkja sér undan eða neita að hlýða skipunum sem hann fékk frá sínum bandarísku yfirboðurum.

Eitt af því sem Bretar börðust gegn af öllu afli var sú ákvörðun Bandaríkjamanna að leysa upp íraska herinn og reka nær alla opinbera starfsmenn vegna tengsla við Saddam Hussein.

Bretar bentu meðal annars á að hernámsliðið væri alltof fámennt til þess að bæði gæta öryggis í Írak og byggja aftur upp innviði sem höfðu verið rústaðir í stríðinu.

Verkfræðisveit íraska hersins gæti til dæmis séð um að endurbyggja brýr og önnur mannvirki og koma á vatni og rafmagni.

Bentu á söguleg dæmi

Bretar sögðu að það væri í eðli herja sem hefðu beðið ósigur að endurskapa sig. Þeir bendu á heri Þýskalands og Japans máli sínu til stuðnings.

Eftir að þeir voru sigraðir hjálpuðu bandamenn við endurreisn þeirra og tókst við þá gott samstarf og samvinna.

Upphafið á óöldinni

Bretum var svo mikið í mun að koma í veg fyrir þetta að Jack Straw sem þá var utanríkisráðherra var sendur með hraði til Washington. En allt kom fyrir ekki.

Margir fréttaskýrendur segja að þessi gjörningur Bandaríkjamanna hafi verið kveikjan að óöldinni sem þá hófst.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×