Innlent

Dýrkeypt gæti orðið að selja varðskipið

Skipið sigldi með allri suðurströndinni nýlega og var aðeins tuttugu sjómílur frá ströndinni á tímabili. Um borð voru 105 þúsund tonn af svartolíu.mynd/lhg
Skipið sigldi með allri suðurströndinni nýlega og var aðeins tuttugu sjómílur frá ströndinni á tímabili. Um borð voru 105 þúsund tonn af svartolíu.mynd/lhg

„Okkur vantar tilfinnan­lega öflugt dráttarskip hingað til lands. Ef það kemur eitthvað fyrir þessi stóru olíuskip sem sigla hér við landið í vaxandi mæli þá verðum við að hafa skip til að bregðast við aðstæðum. Það gæti reynst okkur dýrt að selja skipið,“ segir Halldór B. Nellet, framkvæmdastjóri aðgerðasviðs Landhelgisgæslunnar.

Ásbjörn Óttarsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, sagði í umræðum vegna skattatillagna ríkisstjórnarinnar á föstudag að nauðsynlegt væri fyrir ríkið að draga úr útgjöldum til að koma í veg fyrir skattahækkanir. „Ég vil líka benda á þær tillögur okkar, sem mér finnst vera augljósar, að við getum hugsanlega selt það nýja varðskip sem við eigum að fá á næsta ári og söluandvirði þess gæti verið fimm milljarðar. Svona tel ég frú forseti að við eigum að vinna okkur út úr vandamálunum.“

„Ég lýsi yfir furðu minni á því að þessi hugmynd sé komin fram“, segir Halldór. „Ekki síst vegna þess að dómsmálaráðherra úr röðum Sjálfstæðisflokksins [Björn Bjarnason] skrifaði undir landhelgisgæsluáætlun þegar þeir voru við völd. Þetta sýnir algjöra stefnubreytingu af þeirra hálfu.“

Halldór spyr hvort þingmenn Sjálfstæðisflokks hafi ekki fylgst með umræðunni um þær breytingar sem hafa orðið á siglingum innan íslensku lögsögunnar og tekur nýlegt dæmi um olíuskip sem fór með suðurströndinni á leið sinni vestur um haf til Bandaríkjanna. Farmur þess var yfir hundrað þúsund tonn af olíu og Halldór vill að fólk íhugi hvað það þýðir fyrir lífríki hafs og stranda ef ekkert er skipið til að bregðast við neyðaraðstæðum. Ferðum þessara skipa fjölgi sífellt og Íslendingar verði einfaldlega að vera sjálfbjarga ef koma þurfi stórum skipum til aðstoðar. „Við búum ekki að sama skipafjölda og er í Noregi og Evrópu þar sem er mikið af vel útbúnum dráttarskipum. Hér er ekkert slíkt skip og þess vegna var ráðist í smíði nýja varðskipsins,“ segir Halldór.

Ragna Árnadóttir dómsmálaráðherra segir að ekki sé hægt að útiloka það að varðskipið verði selt. „En við spurningunni hvort þetta hafi verið rætt af alvöru innan ríkisstjórnar eða formlega þá er svarið einfaldlega nei.“

Smíði á nýju fjölnota varðskipi Landhelgisgæslu Íslands stendur yfir hjá ASMAR, skipasmíðastöð sjóhersins í Talcahuano í Chile, og verður tilbúið til afhendingar á fyrri hluta næsta árs.svavar@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×