Innlent

Tugir ferðamanna í sveitagistingu á Síðu um jólin

Jökulsárlón eru án efa með helstu náttúruperlum á Íslandi. Mynd/ Vilhelm.
Jökulsárlón eru án efa með helstu náttúruperlum á Íslandi. Mynd/ Vilhelm.
Ferðaþjónustubóndi við Kirkjubæjarklaustur verður með uppundir fjörutíu erlenda ferðamenn í gistingu um jólin. Þeir vilja sjá Skaftafell og Jökulsárlón en einnig snjó, Norðurljós og stjörnuhimin.

Á Geirlandi á Síðu er rými fyrir sextíu manns í gistingu, í smáhýsum og gistihúsi, og matsalur fyrir áttatíu manns og það verður ekkert frí yfir hátíðirnar hjá þeim Erlu Ívarsdóttur og Gísla Kjartanssyni. Þannig hafa tólf manns bókað gistingu hjá þeim á jóladag.

Erla segir að það sé reitingur af ferðamönnum alla dagana og fari í uppundir 40 manns milli jóla og nýárs. Þetta séu eingöngu útlendingar, þar á meðal tveir hópar, frá Hollandi og Frakklandi.

Vatnajökull virðist helsta aðdráttaraflið. Flestir segist vilja sjá Jökulsárlón en einnig gangi margir upp að Svartafossi. En það er miklu fleira sem dregur fólk til Íslands á þessum árstíma, segir Erla. Sumir vilji sjá snjó eða Norðurljós og fólk úr stórborgum vilji sjá stjörnuhimin.

Erla vill að veturinn verði auglýstur betur. Það þurfi varla lengur að auglýsa sumarið, að minnsta kosti ekki á þessum slóðum, og næsta skref væri kannski að leggja áherslu á haustið og vorið. Ferðamaðurinn er oft að leita að einhverju sem Íslendingum þykir varla merkilegt og Erla segir að Íslendingar þurfi að hlusta betur á hvað það er sem ferðamaðurinn vill.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×