Erlent

Fjölga borgaralega klæddum lögreglumönnum

Atli Steinn Guðmundsson skrifar

Óeinkennisklæddum lögreglumönnum í farþegaflugi verður fjölgað í kjölfar atburðanna sem áttu sér stað í flugi milli Amsterdam og Detroit á jóladag.

Janet Napolitano hjá heimavarnastofnun Bandaríkjanna segir ekkert benda til þess að tilraun nígerísks verkfræðinema til að sprengja farþegaflugvél í loft upp í flugi frá Amsterdam til Detroit hafi verið hluti af alþjóðlegu hryðjuverkasamsæri. Þrátt fyrir það hefur óeinkennisklæddum og vopnuðum lögreglumönnum í bandarískum farþegaflugvélum verið fjölgað síðan atvikið átti sér stað en það hefur CNN-fréttastofan eftir öðrum og ónafngreindum heimildamanni hjá heimavarnastofnuninni.

Verkfræðingurinn verðandi hafði ekki annað upp úr krafsinu en að kveikja í buxunum sínum áður en skelfingu lostin áhöfn flugvélarinnar yfirbugaði hann með aðstoð annarra farþega en bandarísk flugmálayfirvöld líta málið engu að síður mjög alvarlegum augum eins og flugfarþegar um gervalla Evrópu fengu að reyna á eigin skinni þegar þeim var gert að mæta allt að fjórum klukkustundum fyrr en ella vegna herts öryggiseftirlits og sprengjuleitar og þykir mörgum borið í bakkafullan lækinn eftir allar þær tafir sem samgöngur í Evrópu hafa mátt sæta vegna fannfergis fyrir jólin.

Óeinkennisklæddu lögreglumennirnir falla í hóp annarra farþega og vekja enga athygli. Þeir bera hins vegar einu skotvopnin sem heimiluð eru um borð í farþegaflugvélum og eru sérþjálfaðir í að bera kennsl á mögulega hryðjuverkamenn um borð.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×