Viðskipti innlent

SA telur hugmyndir um kolefnisskatt vanhugsaðar

Samtök atvinnulífsins (SA) segja að hugmyndir fjármálaráðuneytisins um að leggja á sérstakan kolefnisskatt séu vanhugsaðar og munu hafa lítil sem engin áhrif á útstreymi gróðurhúsalofttegunda frá íslenskum fyrirtækjum.

Skattheimta sem þessi verður aðeins til þess draga úr samkeppnishæfni íslensks atvinnulífs auk þess að minnka líkur á að erlend fjárfesting verði hér að veruleika á næstu misserum.

Þetta kemur fram í frétt á vefsíðu Samtaka atvinnulífsins. Þar segir m.a. að verði skatturinn lagður á getur orkukostnaður útgerðarfyrirtækja hækkað um allt að þriðjung og útsöluverð á bensíni hækkað um 23 krónur hver lítri og dísellítrinn um 25 krónur.

Þetta yrði til að samkeppnisstaða annarra útflutningsgreina myndi versna. Þannig getur gjaldið sem fjármálaráðuneytið fjallar um hækkað orkukostnað útgerðarinnar um 27-30%. Fjármálaráðuneytið telur eðlilegt að erlend skip og erlendar flugvélar verði undanþegnar gjaldinu en að sjálfsögðu verður það til þess að hér á landi verða hvorki skráð skip né flugvélar.

Að leggja skatt á hráefnisnotkun í orkufrekum iðnaði eins og fjármálaráðuneytið hefur sett fram hugmyndir um þekkist ekki í helstu samkeppnislöndum og yrði einungis til að setja í uppnám þau áform sem kunna að vera uppi um frekari fjárfestingar á þessu sviði hér á landi.

Það er að sjálfsögðu í fullkominni andstöðu við nýgerðan stöðugleikasáttmála ríkisstjórnarinnar og aðila vinnumarkaðarins um að greiða götu stórfjárfestinga til að fjölga störfum í atvinnulífinu. Viðbúið er að hugmyndir fjármálaráðuneytisins muni hafa áhrif á fjárfesta þegar kemur að því að taka ákvörðun um hvort þeir muni fjárfesta hér á landi eða ekki.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×