Innlent

Hefur áhyggjur af heimilunum og aðgerðarleysi ríkisstjórnarinnar

Eygló Harðardóttir
Eygló Harðardóttir
Eygló Harðardóttir þingmaður Framsóknarflokksins segist hafa ofboðslegar áhyggjur af stöðu heimilanna í landinu þar sem ekki sé von á frekari aðgerðum frá ríkisstjórninni. Hún segir óásættanlegt að binda heilu kynslóðirnar í skuldafjötra en það sé það sem blasi við. Eygló var Í bítinu á Bylgjunni í morgun ásamt Katrínu Júlíusdóttur fulltrúa Sumfylkingarinnar.

„Mér fannst sláandi að eftir mal og blaður fulltrúa Samfylkingarinnar þá virðist vera sem ríkisstjórnin sé búin að gera allt sem hún hefur í hyggju fyrir heimilin í landinu. Þær aðgerðir sem gripið var til fyrir kosningar er allt og sumt. Það skýrir kannski ástæðu þess að brugðist hefur verið við nánast með hótunum eins og viðskiptiráðherra hefur gert og svo forsætis- og félagsmálaráðherra. Ég velti því bara fyrir mér hvort fólki geri sér grein fyrir þessu," segir Eygló í samtali við fréttastofu.

Hún segist ekki hafa gert sér grein fyrir þessu fyrr en hún heyrði Katrínu ræða þessi mál í morgun en fólkið í landinu geti hlakkað til hugsanlegra vaxtabóta í ágúst en það sé allt of sumt.

„Ég hef ofboðslegar áhyggjur af stöðu mála eftir fréttir undanfarinna daga þar sem fók hefur verið að lýsa aðstæðum sínum. Það er algjörlega óásættanlegt að binda heilu kynslóðirnar í skuldafjötra," segir Eygló.

Hún tekur síðan dæmi um fólk sem er með íbúðalán upp á þrjátíu milljónir en íbúð sem nú er metin er á tuttugu milljónir. „Síðan þarftu kannski eitt auka herbergi og kaupir nýja íbúð. Þá þarftu að taka þessar tíu milljónir með þér og finna veð fyrir þeim. Fólk er því bundið næstu áratugi í þessu húsnæði. Þessu hef ég áhyggjur af."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×