Viðskipti innlent

SA: Nauðsynlegt að fjölga konum í forystu fyrirtækja

Samtök atvinnulífsins (SA) telja bæði nauðsynlegt og skynsamlegt að fjölga konum í forystusveit íslensks atvinnulífs og hvetja því fyrirtæki til að nýta betur kraft kvenna.

Þetta kemur fram á vefsíðu samtakanna. Þar segir að nýleg íslensk rannsókn sýnir að fyrirtæki eru síður líkleg til að lenda í vanskilum ef þau eru rekin af konum og arðsemi eigin fjár er meiri í fyrirtækjum þar sem konur eru framkvæmdastjórar.

Fyrirtæki sem stofnuð eru af báðum kynjum eru ennfremur líklegust til að lifa og blandaðar stjórnir karla og kvenna hafa reynst best. Á vef SA má nú finna lista yfir fjölmargar öflugar rekstrarkonur sem eru til í að láta frekar til sín taka í íslensku viðskiptalífi.

SA hafa skuldbundið sig til að leggja sitt af mörkum til að stuðla að því að hlutfall kvenna í forystusveit íslensks atvinnulífs verði ekki undir 40% árið 2013. Síðastlið vor skrifuðu SA undir samstarfssamning við FKA - Félag kvenna í atvinnurekstri og Viðskiptaráð Íslands um að efla hlut kvenna í stjórnun íslensks atvinnulífs.

Fulltrúar stjórnmálaflokka á Alþingi styðja samninginn en CreditInfo mun mæla árangur verkefnisins árlega.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×