Viðskipti innlent

Segir Reykjanesbæ ekki hafa samið af sér

Gunnar Örn Jónsson skrifar
Böðvar Jónsson, formaður bæjarráðs Reykjanesbæjar.
Böðvar Jónsson, formaður bæjarráðs Reykjanesbæjar.
Böðvar Jónsson, formaður bæjarráðs Reykjanesbæjar og fulltrúi Sjálfstæðisflokksins í bæjarráði, er ekki sáttur við ummæli Sigrúnar Elsu Smáradóttur, borgarfulltrúa Samfylkingarinnar um að Reykjanesbær hafi samið af sér varðandi sölu Reykjanesbæjar á hlut sínum í HS Orku til Geysis Green Energy.

Böðvar segir að í samningum Reykjanesbæjar við GGE sé meðal annars skýrt tekið fram að komi til útgreiðslu arðs frá HS Orku á líftíma skuldabréfsins, þá skuli arður vegna þeirra hlutabréfa sem liggja til tryggingar skuldinni greiðast inn á skuldabréfið.

„Þannig er tryggt að ekki verði tekinn út arður úr félaginu án þess að jafnframt komi til innborgunar inn á skuldabréfið. Þá eru einnig ákvæði um lágmarks eiginfjárstöðu HS Orku að öðrum kosti kemur til gjaldfellingar á bréfinu. Það var því mjög vel útfært að eignaraðilar HS orku geta ekki greitt sér arð, fært til eignir eftir hentugleikum eða framkvæmt aðra gjörninga og rýrt þannig veð skuldabréfsis," segir Böðvar Jónsson.

Á hann þar við eftirfarandi ummæli Sigrúnar Elsu sem birtust á Vísi fyrr í dag, þar segir Sigrún:

„Það er mikið áhyggjuefni að einungis eru veð í hlutum í Hitaveitu Suðurnesja fyrir lokagreiðslum en þá hafa þessir einkaaðilar haft sjö ár til að greiða sér arð, færa til eignir eftir hentugleikum og engin trygging er fyrir því að verðmæti veðanna í HS Orku haldi verðgildi sínu, þetta er allt of mikil áhætta með of litlum tryggingum."

Hann segist ekki sjá að Sigrún Elsa hafi neina stöðu til þess að vera að skjóta á bæjarstjórn Reykjanesbæjar í þessu máli en verra þegar verið er að skjóta slíkum skotum án þess að hafa næga þekkingu á málinu.

Böðvar segir augljóst að hún hafi ekki sett sig nægilega vel inn í málið. „Að bera saman kaupverð OR á Hitaveitu Suðurnesja, á genginu 7.0 annars vegar og söluverð á HS Orku, á genginu 6,31 hins vegar, er auðvitað kolrangt, enda hefur Hitaveitu Suðurnesja verið skipt upp í tvö fyrirtæki í millitíðinni, það er HS Orku og HS Veitur."

„Samanburður á gengi þessara tveggja fyrirtækja er því alls ekki samanburðarhæft nema taka tillit til þeirrar skiptingar sem fyrirtækið hefur farið í gegnum," segir Böðvar Jónsson.




Tengdar fréttir

Tilboð Magma Energy er allt of mikil áhætta með of litlum tryggingum

„Tilboð Magma Energy í HS Orku er allt of mikil áhætta með of litlum tryggingum en einungis hlutir í Hitaveitu Suðurnesja eru að veði fyrir fyrir lokagreiðslum Magma Energy í HS Orku. Þá hafa þessir einkaaðilar haft sjö ár til að greiða sér arð, færa til eignir eftir hentugleikum en það er engin trygging fyrir því að verðmæti veðanna í HS Orku haldi verðgildi sínu," segir Sigrún Elsa Smáradóttir, borgarfulltrúi Samfylkingarinnar. Hún segir Reykjanesbæ hafa samið af sér.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×