Innlent

Segir komandi ár verða þung í rekstri

Ölfusárbrú á Selfossi Bæjarstjórn Árborgar vonast til að gjáin í rekstri sveitarfélagsins verði brúuð í síðasta lagi árið 2013. Fréttablaðið/Pjetur
Ölfusárbrú á Selfossi Bæjarstjórn Árborgar vonast til að gjáin í rekstri sveitarfélagsins verði brúuð í síðasta lagi árið 2013. Fréttablaðið/Pjetur

„Gera má ráð fyrir áframhaldandi þunga í rekstri á allra næstu árum en með samstöðu og stefnufestu er góð von til þess að jákvæð rekstrarniðurstaða náist í síðasta lagi árið 2013," segir í bókun meirihlutans í bæjarstjórn Árborgar þegar fjárhagsáætlun næsta árs var samþykkt.

Eins og komið hefur fram í Fréttablaðinu greiddu fulltrúar Sjálfstæðisflokks atkvæði gegn fjárhagsáætluninni. Þeir segja að með áætluninni stefni sveitarfélagið í tæknilegt gjaldþrot um mitt næsta ár. Í bókun meirihluta Framsóknarflokks, Samfylkingar og Vinstri grænna segir að markmið sé að standa vörð um velferð íbúanna með sérstakri áherslu á málefni barna og ungmenna.

„Á sama tíma þarf að draga verulega úr rekstrarkostnaði sveitarfélagsins annað árið í röð til að bregðast við því efnahags- og rekstrar­umhverfi sem nú er. Í niðurskurðar­aðgerðum hefur áhersla fremur verið á að draga úr þjónustu heldur en að leggja niður einstaka þjónustuþætti. Rík áhersla hefur verið lögð á að skerða ekki kjör starfsfólks meira en nauðsyn krefur og grípa ekki til beinna uppsagna nema í undantekningatilvikum," segir í bókuninni. Góð von sé til þess að reksturinn verði jákvæður í síðasta lagi árið 2013, eins og áður segir. „Því er full ástæða til bjartsýni um framtíðina fyrir Sveitarfélagið Árborg," segir meirihlutinn.- gar




Fleiri fréttir

Sjá meira


×