Innlent

Kaupmannahafnarráðstefnu lýkur í dag

Svandís Svavarsdóttir hélt lokaræðu sína á ráðstefnunni í gærkvöldi.
Svandís Svavarsdóttir hélt lokaræðu sína á ráðstefnunni í gærkvöldi.

Loftslagsráðstefnunni í Kaupmannahöfn lýkur í dag um klukkan þrjú. Þótt ekki sé búist við að gengið verið frá alþjóðlegum lagalegum skuldbindinum um losun gróðurhúsalofttegunda í framtíðinni er vonast til að pólitísk samstaða náist um hvert viðræður skuli stefna á næstu árum.

Þjóðarleiðtogar stærstu ríkja heims sitja nú á rökstólum í Kaupmannahöfn. Mjög misvísandi fréttir berast af því hvaða lending verði á málinu.

Hafdís Gísladóttir aðstoðarmaður Svandísar Svavarsdóttur umhverfisráðherra segir að þótt afar ólíklegt sé að gengið verði að lagalegum skuldbindingum sé það von manna á ráðstefnunni að hún verði til þess að sameiginleg markmið um næstu skrefi í málinu verði til.

Í ræðu sem Svandís flutti fyrir hönd Íslands í nótt kom meðal annars fram að Íslendingar eru tilbúnir til að draga verulega úr losun gróðurhúsalofttegunda eða um allt að 30 prósent í samvinnu við Evrópusambandið.

Þá benti Svandís á þá ógn sem losun gróðurhúsalofttegunda hefði í för með sér fyrir höfin. Súrnun hafanna væri dulinn vandi, sem gæti haft alvarleg áhrif á lífríki hafsins, sem væri áhyggjuefni fyrir land sem byggði afkomu sína á sjávarútvegi.

Hún benti auk þess á nú þegar sæju endurnýjanlegir orkugjafar Íslendingum að fullu fyrir rafmagni og hita og stefnt væri að því að hætta notkun jarðefnaeldsneytis fyrir bíla og skip.

Svandís kvaðst svo sérstaklega ánægð með áhersluna sem er komin á aðkomu beggja kynja, sem íslensk stjórnvöld höfðu talsverð áhrif á að kæmist inn í samningsdrögin sem lágu fyrir ráðstefnunni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×