Innlent

Tók fíkniefni og stolna glæsikerru

Amfetamín Fíkniefnaleitarhundur fann 250 grömm af amfetamíni falin á háalofti hússins.
Amfetamín Fíkniefnaleitarhundur fann 250 grömm af amfetamíni falin á háalofti hússins.

Fíkniefnadeild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu stöðvaði kannabisræktun, tók hundruð gramma af amfetamíni og fann stolinn glæsivagn í húsleit í fyrradag.

Á þriðja tímanum í fyrradag var farið til húsleitar í nýbyggt um það bil 340 fermetra einbýlishús á þremur hæðum í úthverfi Mosfellsbæjar. Höfðu upplýsingar borist um einkennilegar mannaferðir á öllum tímum sólarhrings.

Húsráðandi, maður á þrítugsaldri, var handtekinn er kannabisræktun fannst þar innandyra í haganlega földu rými. Hafði hún verið skimuð af með risastórri kommóðu. Taldi ræktunin um 150 plöntur á ýmsum stigum ræktunar.

Í bílskúr fannst nýleg Mercedes Benz bifreið, margra milljóna virði, er reyndist eftirlýst frá Akranesi frá því í sumar.

Tveir fíkniefnaleitarhundar frá tollgæslunni voru fengnir á staðinn. Fann annar þeirra 250 grömm af amfetamíni sem voru vel falin í dós, sem var innan um ýmiss konar drasl á háalofti hússins.

Húsráðandi, sem áður hefur komið við sögu hjá lögreglu, sætti yfirheyrslum í gær, en var látinn laus að þeim loknum.

Sem fyrr minnir lögreglan á fíkniefnasímann 800-5005.- jss




Fleiri fréttir

Sjá meira


×