Innlent

Nýbakaður milljónari æpti af gleði

Lottó Vinningshafarnir fengu þrjátíu milljónir í sinn hlut.
Lottó Vinningshafarnir fengu þrjátíu milljónir í sinn hlut.

Tveir nýir milljónamæringar komu til Íslenskrar getspár með Lottómiða sem gáfu hvor um sig rúmlega 30 milljónir í vinning í fyrradag.

Annar er öryrki á fertugsaldri sem hefur verulega skerta starfsorku og hefur ekki lengur getu til að vera á vinnumarkaðinum. Hann hafði boðið móðir sinni á rúntinn í Vesturbænum og þegar þau keyrðu Ægissíðuna ákvað hann að koma við á N1 og kaupa fimm tíu raða Lottómiða, að því er segir í tilkynningu frá Íslenskri getspá. Maðurinn vissi sem var að hann væri hvort eð er að styrkja gott málefni og auðvitað væri smá von um vinning. Maðurinn horfði á útdráttinn í sjónvarpinu um kvöldið en það var ekki fyrr en eftir miðnætti sem hann leit á textavarpið og sá á fjórða miðanum sem hann skoðaði að hann var með þrjár réttar tölur.

Þegar maðurinn skoðaði svo miðann enn betur reyndist hann hafa allar fimm tölurnar réttar.

„Hann öskraði upp og hljóp inn í herbergi til móður sinnar sem hélt að eitthvað alvarlegt hafði gerst en það var mikil gleði þegar hann sagði henni að hann hefði unnið 30 milljónir í Lottó," segir í tilkynningu frá Lottó. Vinningshafinn ætlar að hugsa vel hvað hann gerir við peninginn en ætlar að byrja á að kaupa sér sjálfskiptan bíl sem hann getur ferðast á um landið.

Hinn vinningshafinn keypti sér miða í Samkaup Strax á Flúðum. Þetta er fjölskyldumaður með tvö börn og býr fjölskyldan í höfuðborginni en var í helgarferð í sumarbústað á Flúðum. Það var ekki fyrr á sunnudagskvöldið, á leiðinni heim, að þau skoðuðu miðann. Maðurinn hafði heyrt í útvarpinu að annar vinningsmiðinn hefði verið seldur á Flúðum og reyndist það vera miðinn hans.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×