Viðskipti innlent

Hafnarfjörður verði rekin með hagnaði á næsta ári

Fjárhagsáætlun Hafnarfjarðar gerir ráð fyrir að bæjarfélagið verði rekið með hagnaði á næsta ári. Rekstrarniðurstaða A og B hluta er áætluð jákvæð um 401 milljónir kr. en til samanburðar má gera ráð fyrir hallarekstri upp á tæpa 2 milljarða kr. í ár.

Fjárhagsáætlun Hafnarfjarðarkaupstaðar fyrir árið 2010 ásamt langtímaáætlun fyrir árin 2011-2013 var tekin til fyrri umræðu í bæjarstjórn Hafnarfjarðar í dag.



Í tilkynningu segir að þrátt fyrir fyrirséður sé umtalsverður samdráttur í tekjum bæjarsjóðs samhliða auknum útgjöldum vegna fjölskyldu og velferðarmála, verður áfram lögð megináhersla á að ná fram hagræðingu og sparnaði í rekstri, stjórnsýslu og framkvæmdum án þess að skerða grunnþjónustu og velferðarmál.

Framlög til velferðarmála munu aukast m.a. með hækkun framfærslustyrkja. Almenn þjónustugjöld sem tengjast grunn- og leikskóla verða óbreytt fram að nýju skólaári og kynntar hafa verið tillögur um aukinn afslátt af fasteignagjöldum til ellilífeyrisþega og öryrkja. Hagræðingu í rekstri verður m.a. náð með auknu aðhaldi, nýjum þjónustuútboðum, markvissri stýringu í rekstri fasteigna, lækkun launakostnaðar og öðrum aðgerðum án þess að grunnþjónusta verði skert né gæði almennrar þjónustu við bæjarbúa.

Gert er ráð fyrir að rekstrarniðurstaða A hluta verði jákvæð um nær 668 milljónir kr. fyrir fjármagnsliði á árinu 2010 en hún verður jákvæð um rúmar 158 milljónir kr. samkvæmt útkomuspá fyrir árið 2009. Rekstrarniðurstaða eftir fjármagnsliði er áætluð jákvæð um 247 milljónir kr. á árinu 2010 en samkvæmt útkomuspá 2009 er rekstrarniðurstaða hins vegar neikvæð eftir fjármagnsliði um 1.552 milljónir kr. vegna óhagstæðra gengis- og verðlagsbreytinga.

Rekstrarniðurstaða A og B hluta er áætluð jákvæð um 401 milljónir kr. á árinu 2010 en samkvæmt útkomuspá fyrir árið 2009 eru hún neikvæð um 1.948 milljónir kr.

Dregið hefur verið úr öllum framkvæmdum og fjárfestingum á árinu 2009 en fjárfestingaráætlun fyrir árið 2010 verður endurskoðuð þegar línur skýrast varðandi fjár­mögnun hverrar framkvæmdar.

Forsendur fyrir fjárhagsáætluin næsta árs eru að gert er ráð fyrir að útsvarshlutfallið verði óbreytt á milli ára eða 13,28%. Áætlun útsvarstekna er byggð á útkomuspá ársins 2009 en gert er ráð fyrir að íbúatala verði óbreytt. Reikna má með því að launabreytingar á árinu 2010 verði óverulegar.

Áætlaðar útsvarstekjur lækka um 4% á milli ára frá útkomuspá sem er raunlækkun um ríflega 8% miðað við verðlagsforsendur. Álagningarhlutfall fasteigna­skatts, vatnsgjalds, holræsagjalds og lóðarleigu verður óbreytt á milli ára en sorpeyðingargjald hækkar um 10% á milli ára. Umfangsmikið endurmat á landsvísu varð á matsstofni fasteigna fyrr á árinu en það leiddi til að matsstofn Hafnarfjarðarbæjar lækkar um 3,6% á milli ára. Þessi lækkun leiðir til að tekjur vegna fasteignagjalda lækka sem nemur þessum prósentum miðað við álagningu ársins 2009.

Reiknað er með að launabreytingar á árinu 2010 verði óverulegar. Á yfirstandandi ári var farið í aðgerðir til að lækka launakostnað sem munu skila sér enn frekar á árinu 2010.

Ekki er gert ráð fyrir að þjónustugjöld bæjarins hækki þrátt fyrir miklar verðlagshækkanir á árinu 2010, en farið verður í endurskoðun á uppbyggingu gjaldskráa bæjarins og í framhaldi af þeirri vinnu verður tekin ákvörðun um breytingu á þeim.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×