Innlent

Fjölmargir vilja senda ullarfatnað til breskra eldri borgara

Fjölmargir hafa lagt leið sína til Landflutninga í Kjalarvoginum til að koma með íslenskan ullarfatnað fyrir eldri borgara í Bretlandi, en söfnunin stendur yfir til þriðjudagsins 20. janúar.

Sagt er frá þessu á vefsíðunni Interseafood.com. Óhætt er að segja að söfnuninni hafi verið vel tekið og fólk greinilega tilbúið að rétta hjálparhönd. Fyrirtækin Ístex og Álafoss létu ekki sitt eftir liggja og sendu myndarlegar sendingar til söfnunarinnar.



Um er að ræða samstarf á milli Bylgjunnar, Landflutninga - Samskipa og Jóna Transport að safna íslenskum ullarfatnaði á landinu og senda til þurfandi eldri borgara á Bretlandi sem búa við erfiðar aðstæður vegna kulda.

Tekið er á móti fatnaðinum á skrifstofum Landflutninga um land allt svo og í afgreiðslu Landflutninga í Kjalarvogi. Oddi og Plastprent leggja verkefninu til pappakassa og plast til pökkunar, en Samskip munu sigla gámnum til Bretlands í næstu viku og sjá Jónar Transport um alla pappírsvinnu vegna verkefnisins.

Bylgjan, Kolla og Heimir, munu taka á móti gámnum í Immingham og afhenda fatnaðinn samtökum eldri borgara sem sjá um dreifingu hans.

Átakinu verður fylgt eftir á Bylgjunni meðan söfnun stendur yfir og þar til fatnaðurinn er kominn til áfangastaðar og vonandi kemur í veg fyrir að fólk deyi úr kulda.

Söfnunin hófst 15. janúar og síðasti móttökudagur er 20.janúar. Gert er ráð fyrir að afhenda lopapeysurnar 26.janúar.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×