Skoðun

Samfylkingin og Evrópusambandið

Ýmsir talsmenn Samfylkingarinnar fóru mikinn í Evrópuumræðunni í nýliðinni kosningabaráttu. Sögðu þeir Íslendinga bókstaflega verða að ganga í Evrópusambandið sem allra fyrst. Annars yrði hér allsherjar efnahagshrun, stórfelldur fyrirtækja- og fólksflótti og viðvarandi svartnætti. Íslendingar ættu ekkert val. Þessir talsmenn Samfylkingarinnar byggja afstöðu sína á bölskoðun á íslensku efnahagslífi og brennandi trú á Evrópusambandinu sem fátt virðist geta haggað. Jafnframt hafa þessir sömu talsmenn sagt að tafarlaus undirbúningur að aðild að Evrópusambandinu sé skilyrði í stjórnarsamstarfi við aðra flokka. Sumir þessarra talsmanna bæta því samt við að þeir séu ekkert endilega að leggja til að Ísland gangi í ESB - þeir séu bara að berjast fyrir því að Íslendingar sæki um og semji um aðild að ESB til að gá og sjá hvað við fáum í svona samingi. Þjóðin geti svo tekið afstöðu til samningsins.

Að gá og sjáEn er þetta trúverðugur málflutningur? Ef áhugi þessara talsmanna á inngöngu er svo brennandi sem þeir láta, samanber málflutninginn um að Íslendingar „verði að ganga þarna inn", hverju eru þeir þá tilbúnir að fórna fyrir samninginn? Getur þá verið að afstaða þeirra til aðildarviðræðna sé bara að „gá og sjá"? Rétt er að hafa í huga í þessu sambandi að ESB fer tæplega í aðildarviðræður við þjóðir sem ætla bara að semja til prufu. Aðildarumsókn mætir þeirri eðlilegu kröfu af hálfu ESB að um ásetning og vilja til inngöngu sé að ræða hjá viðkomandi stjórnvöldum. Þegar aðildarsamningur er frágenginn gerir ESB jafnframt þá eðlilegu kröfu að viðkomandi stjórnvöld standi að baki slíks samnings og vinni með ráðum og dáð að samþykkt hans í viðkomandi ríki.

SjávarútvegsstefnanAðildarumsóknir einstakra ríkja á undanförnum árum hafa fylgt þeirri forskrift. Við þetta má svo bæta að ríki sem hyggjast ganga í ESB verða að gera sér grein fyrir því í upphafi að þau fara inn í sambandið til að vera og fara ekki þaðan út aftur þótt þau kunni að telja síðar að það þjónaði betur hagsmunum þeirra. Þessir hörðu talsmenn Samfylkingarinnar í Evrópumálum hafa lýst því yfir að þeir myndu ekki styðja samning og inngöngu í ESB sem fæli í sér að Íslendingar afsöluðu sér forræði yfir náttúruauðlindum sínum. En er þetta raunhæfur málflutningur? Ef eitthvað liggur yfirleitt fyrir um innihald hugsanlegs aðildarsamnings Íslands og ESB, er það einmitt hin ófrávíkjanlega krafa ESB (samkvæmt öllum helstu talsmönnum sambandsins) að Ísland félli undir auðlindastefnu sambandsins og að forræði og yfirstjórn auðlindanýtingar, svo sem aflaheimildir og veiðistjórn, færðist til sambandsins (Ísland fengi í mesta lagi einhvern aðlögunartíma).

Hér er rétt að hafa í huga að fiskveiðistjórnun Evrópusambandsins hefur verið í miklum ólestri á undanförnum árum sökum margs konar undanbragða og ofveiði. Nýjar hugmyndir sem fram hafa komið innan sambandsins fela í sér að landskvótareglan um „hlutfallslegan stöðugleika" verði endurskoðuð eða lögð niður. Þetta er þó einmitt sú regla sem harðir Evrópusinnar hafa talið að myndi vera Íslendingum traust vörn við úthlutun aflaheimilda ef þeir gengju inn í sambandið.

Evran og efnahagslífið

Loks hafa hinir hörðu talsmenn sagt að Íslendingar þurfi að ganga sem fyrst í Evrópusambandið til að taka upp evru svo rétta megi efnahahagslífið við. En er það trúverðugur málflutningur? Innganga í ESB tryggir engan veginn upptöku evru. Hér er um tvö mál að ræða. Ýmis ríki ESB uppfylla ekki skilyrði sambandsins fyrir upptöku evru og hafa aldrei gert. Íslendingar hafa heldur ekki uppfyllt öll þessi skilyrði samtímis og ekki útlit fyrir að svo verði á næstu árum. Til viðbótar kemur svo að ef af upptöku evru yrði einhvern tíma í framtíðinni tryggði það ekki Íslendinga gegn efnahagslegum áföllum og erfiðleikum. Nægir þar að nefna reynslu Spánverja og Íra.

Loks er að nefna að Evrópusamstarfið felur í sér pólitískt ekki síður en efnahagslegt samstarf og samrunaþróun. Embættismenn í Brussel og stjórnmála- og áhrifamenn aðildarríkja Evrópusambandsins sem skemur vilja ganga á hinni pólitísku braut vilja auka vægi sambandsins sem yfirþjóðlegrar valdstofnunar og draga sem því svarar úr valdi þjóðríkjanna sem mynda bandalagið, en þeir sem lengst vilja ganga innan sambandsins stefna að evrópsku stórríki með afnámi fullveldis aðildarríkjanna sem yrðu fylki og héruð í evrópska stórríkinu. Hér má minna á viðeigandi orð Uffe Elleman Jensen á dögunum um að lönd sem ætla sér inngöngu í Evrópusambandið verði að hafa áhuga á hinu pólitíska samstarfi og samruna. Menn gangi ekki inn í Evrópusambandið einungis á efnahagslegum forsendum.

Galli á málflutningi hinna hörðu stuðningsmanna Evrópuaðildar er hve umræðan er þröng í kringum tiltekin efnahagsleg atriði, hve kostir ESB-aðildar eru illa rökstuddir og hve lítið er gert úr ókostunum sé yfirleitt á þá minnst. Úr verður áróður í stað þeirrar upplýsandi umræðu sem mikil þörf er á um þessar mundir.

Höfundur er prófessor í félagsfræði.




Skoðun

Skoðun

Stöðvum hel­víti á jörðu

Birna Þórarinsdóttir,Bjarni Gíslason,Gísli Rafn Ólafsson,Sigríður Schram,Stella Samúelsdóttir,Tótla I. Sæmundsdóttir skrifar

Sjá meira


×