Viðskipti innlent

Bíða enn heimildar bankans

Hús landsvirkjunar Seðlabankinn hefur ekki veitt Landsvirkjun heimild til að gefa út skuldabréf í krónum og selja erlendum fjárfestum. Fréttablaðið/GVA
Hús landsvirkjunar Seðlabankinn hefur ekki veitt Landsvirkjun heimild til að gefa út skuldabréf í krónum og selja erlendum fjárfestum. Fréttablaðið/GVA

Seðlabankinn hefur enn ekki veitt Landsvirkjun heimild til útgáfu á skuldabréfi í krónum og selja erlendum fjárfestum. Talið er að þeir hafi meiri áhuga á ríkistryggðum skuldabréfum.

„Við áttum fund með fulltrúum lífeyrissjóðanna og kynntum hugmyndir okkar um útgáfu skuldabréfa í Bandaríkjadölum. Þetta er á hugmyndastigi og ekki komið lengra,“ segir Stefán Pétursson, framkvæmdastjóri fjármálasviðs Landsvirkjunar. „Ég myndi kjósa að þetta yrði að veruleika í júlí.“

Á fundinum, sem haldinn var í gærmorgun, var viðruð hugmynd um útgáfu skuldabréfs upp á 50 milljónir dala, jafnvirði rétt rúmra sex milljarða króna, á gengi gærdagsins. Ef af verður munu lífeyrissjóðirnir kaupa bréfin með erlendum eignum.

Þetta er annar tveggja kosta sem Landsvirkjun hefur í skoðun varðandi skuldabréfaútgáfu til að styrkja eiginfjárstöðu fyrirtækisins og koma framkvæmdum af stað.

Hin er í samræmi við heimild Seðlabankans sem felur í sér að erlendir eigendur íslenskra krónubréfaeigna kaupi íslensk skuldabréf útgefin í krónum sem greidd eru til baka í erlendum gjaldeyri.

Viðræður hafa staðið yfir á milli Landsvirkjunar og Seðlabankans auk fleiri fyrirtækja um leiðir sem þessa síðan fyrir áramót. Lendingin var að gera erlendum fjárfestum, sem festust inni við setningu gjaldeyrishaftanna, kleift að losa stöður sínar með kaupum á skuldabréfum í krónum sem greiðast til baka í uppgjörsmynt viðkomandi fyrirtækis.

Lítil hreyfing er á málinu en stærstu útflutningsfyrirtæki landsins bíða þess að Landsvirkjun brjóti ísinn. Það hefur enn ekki gerst þar sem Seðlabankinn hefur enn ekki veitt Landsvirkjun heimild til útgáfunnar.

Tölvuleikjafyrirtækið CCP nýtti sér heimildina á dögunum og blés til skuldabréfaútgáfu undir lok síðasta mánaðar. Hilmar V. Pétursson, forstjóri CCP, vildi ekkert tjá sig um málið í gær. „Við erum að fara yfir það,“ segir hann.

Viðmælendur Fréttablaðsins telja ekki ósennilegt að erfitt sé að heilla erlenda krónubréfaeigendur sem sitja fastir með eign sína í Seðlabankanum. Hafi þeir meiri áhuga á ríkistryggðum skuldabréfum og bréfum sveitarfélaga en skuldabréfum fyrirtækja. Því verði að leita annarra fjármögnunarkosta, svo sem með því að leita til lífeyrissjóðanna.

jonab@markadurinn.is






Fleiri fréttir

Sjá meira


×