Erlent

Ástralskt glæpakvendi slær í gegn með ævisögu

Atli Steinn Guðmundsson skrifar
Roberta Williams.
Roberta Williams.

Nýútkomin bók fyrrum eiginkonu ástralska glæpaforingjans Carls Williams hefur vakið verðskuldaða athygli þar í landi.

Roberta Williams var lítt við alþýðuskap þegar þau hjónin voru upp á sitt besta í bransanum. Nú afplánar fyrrverandi maður hennar hins vegar 35 ára fangelsisdóm fyrir að bera ábyrgð á þremur morðum sem hann lét fremja sem stjórnandi glæpahrings í Ástralíu en Roberta elur börn þeirra upp og hefur snúið baki við fyrra líferni.

Hún þykir sýna á sér heldur betur nýja og breytta hlið í bókinni „Líf mitt, ósögð saga úr undirheimunum" en þar segir hún frá stormasamri æsku, snemmbúnum afbrotaferli og ljúfu lífi í skjóli gróða auðgunarbrota. Allt tók þetta þó enda að lokum og nú segist Roberta því einna helst fegin að hafa sloppið lifandi frá öllu saman.

Hún er ómyrk í máli þegar hún segist allt annað en sátt við þá mynd sem dregin var upp af henni þegar ástralska leikkonan Kat Stewart túlkaði hana í þáttaröðinni Underbelly þar sem henni var lýst sem eiturlyfjafíkli sem vanrækti börnin sín. Aldrei hafi hún vanrækt börnin en hitt megi eins viðurkenna að leiðarlokum, að glæpirnir hafi ekki borgað sig.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×