Viðskipti innlent

Forstjóri Steypustöðvarinnar vísar ásökunum á bug

Hannes Sigurgeirsson, forstjóri Steypustöðvarinnar.
Hannes Sigurgeirsson, forstjóri Steypustöðvarinnar.

Hannes Sigurgeirsson, forstjóri Steypustöðvarinnar, vísar ásökunum Víglunds Þorsteinssonar stjórnarformanns BM Vallár sem hann lét falla í fréttum Stöðvar 2 í gær, til föðurhúsanna. Víglundur benti á það í gær að forstöðumaður lánaeftirlits Íslandsbanka sé jafnframt stjórnarformaður Steypustöðvarinnar. Að minnsta kosti tvö dæmi eru fyrir því að sögn Víglunds að viðskipti hafi verið færð frá BM Vallá til Steypustöðvarinnar fyrir tilstilli Íslandsbanka.

Hannes segir hinsvegar í yfirlýsingu sinni að stjórn og eigendur Steypustöðvarinnar hafi á engan hátt haft afskipti af einstaka viðskiptavinum eða reynt að hafa áhrif á viðskiptasamninga sem Steypustöðin hefur gert við viðskiptavini sína. „Starfsmenn Steypustöðvarinnar hafa með öflugri þjónustu og hágæða vörum byggt upp gott og ábyggilegt fyrirtæki sem rekið er í samkeppni við önnur viðlíka fyrirtæki á markaðnum og hafa náð mjög góðum árangri á sínu sviði," segir hann.

Að mati Hannesar er vissulega mikilvægt að huga að samkeppnisumhverfi fyrirtækja í þeim efnahagsþrengingum sem nú dynja yfir íslenskt atvinnulíf. „Það er því miður staðreynd að beinir hagsmunir íslenskra banka inn í fyrirtækjum í dag hafa þróast með öðrum hætti en fyrirséð var og æskilegt er. Ég geri ráð fyrir að BM Vallá sé þar engin undantekning," segir hann og bætir við að hann telji eðlilegt að fyrirtæki keppi um hylli viðskiptavina með góðri þjónustu og samkeppnishæfu verðlagi en ekki dylgjum í garð samkeppnisaðila. „Það borgar sig nefnilega ekki að kasta grjóti ef maður býr í glerhúsi," segir Hannes Sigurgeirsson að lokum.


Tengdar fréttir

Ríkisbankarnir hygla fyrirtækjum í þeirra eigin eigu

Dæmi eru um að ríkisbankarnir hafi milligöngu um óeðlilega fyrirgreiðslu til fyrirtækja í þeirra eigin eigu og háttsettir bankastarfsmenn sitji beggja vegna borðs við afgreiðslu mála. Þetta er engan veginn í lagi, segir stjórnarformaður BM Vallár, sem telur samkeppnisstöðu fyrirtækja verulega skekkta.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×