Erlent

Vill fréttina fordæmda

Benjamín Netanjahú Forsætisráðherra Ísraels hélt í gær af stað í fjögurra daga Evrópuferð.nordicphotos/AFP
Benjamín Netanjahú Forsætisráðherra Ísraels hélt í gær af stað í fjögurra daga Evrópuferð.nordicphotos/AFP

Benjamín Netanjahú, forsætisráðherra Ísraels, segir að sænsk stjórnvöld hafi farið yfir strikið með því að neita að fordæma frétt í sænska dagblaðinu Aftonbladet, þar sem sagt var frá grunsemdum Palestínumanna um að ísraelskir hermenn hefðu drepið Palestínumenn til að selja úr þeim líffæri.

„Við erum ekki að biðja um afsökunarbeiðni, heldur for­dæmingu,“ sagði Netanjahú, sem í gær tjáði sig í fyrsta sinn opinberlega um málið.

Jan Helin, ritstjóri Afton­bladet, svaraði hins vegar fyrir sig í leiðara í gær, þar sem hann sagðist hvorki vera nasisti né gyðinga­hatari: „Ég er ábyrgur ritstjóri sem gaf grænt ljós á frétt vegna þess að hún vekur upp nokkrar spurningar,“ skrifaði hann.

Hann tók jafnframt fram að blaðið hefði engar sannanir í fórum sínum fyrir því, að fréttin sé rétt. Á sunnudaginn birtist í blaðinu framhald fréttarinnar, þar sem segir að rannsaka þurfi hvort eitthvað sé hæft í þessum ásökunum, „annaðhvort til þess að binda enda á orðróm meðal Palestínumanna, eða, ef orðrómurinn reynist réttur, að stöðva verslun með líffæri.“

Netanjahú hélt í gær af stað í ferð til nokkurra Evrópulanda, og kom fyrst til Bretlands þar sem hann hittir Gordon Brown forsætis­ráðherra að máli. Síðar í vikunni mun hann heimsækja Angelu Merkel, kanslara Þýskalands. Einnig mun hann í Evrópuferðinni hitta George Mitchell, fulltrúa Bandaríkjastjórnar.

Búast má við að þau þrjú leggi enn áherslu á að Ísraelsstjórn haldi starfsemi ísraelskra landtökumanna í skefjum, en heima fyrir hafa hægrisinnaðir stuðningsmenn Netanjahús hvatt hann til að hunsa kröfu Bandaríkjamanna um að frekari framkvæmdir á landtökubyggðum verði stöðvaðar.

Netanjahú hefur til þessa verið fylgjandi landtökubyggðum, en þarf nú að dansa línudans á milli þessara tveggja sjónarmiða. Þótt Netanjahú hafi ekki fallist opinberlega á kröfur Bandaríkjanna, þá hafa framkvæmdir í reynd legið niðri.

„Forsætisráðherrann býst við því að einhver árangur náist, en að okkar mati er þess ekki að vænta að nein tímamótaskref verði stigin,“ sagði Nir Hefetz, aðstoðarmaður Netanjahús.

gudsteinn@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×