Innlent

Brjálað að gera í fataviðgerðum í kreppunni

Hafsteinn Gunnar Hauksson skrifar
Saumavélarnar fá vart frið þessa dagana.
Saumavélarnar fá vart frið þessa dagana. Mynd/ÞÖK
Það er brjálað að gera í fataviðgerðabransanum um þessar mundir, en það er samdóma álit saumaverkstæða sem fréttastofa hafði samband við. Telja forsvarsmenn þeirra víst að margir kjósi frekar að láta gera við gömul föt eða breyta þeim, en að kaupa ný í kreppunni.

„Fólk hendir ekki buxunum sínum í dag þó það komi gat á þær," segja Súsanna og Lára Magnúsdætur sem reka Saumastofuna í Fákafeni.

Að þeirra sögn er bókstaflega allt brjálað að gera, einkum í viðgerðum, þar sem mikillar aukningar gætir. Þær segja marga koma til sín til að láta breyta gömlum fötum; þrengja þau, víkka eða stytta, frekar en að kaupa ný.

Arna Arnfinnsdóttir, annar eigandi Saumnálarinnar, hefur svipaða sögu að segja: „Fólk er minna að kaupa sér ný föt. Það kemur frekar með gamalt úr skápnum sem þarf að laga eða gera við."

Hún hefur sömuleiðis orðið var við aukin viðskipti, og segir saumakonurnar oft vinna fram á kvöld.

Auður Þórisdóttir, kjólameistari Saumsprettunnar, tekur í sama streng, og segir biðtíma hafa lengst mikið undanfarna mánuði.

„Fyrir ári síðan var yfirleitt í mesta lagi tveggja vikna bið, þegar allra mest var að gera. Nú eru þetta þrjár til fjórar vikur að staðaldri og búið að vera síðan í febrúar," segir Auður.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×