Erlent

Washington Redskins þurfa ekki að breyta um nafn

Atli Steinn Guðmundsson skrifar
Lukkudýr Redskins (til hægri) ásamt lukkudýri Dallas Cowboys á leik árið 2005.
Lukkudýr Redskins (til hægri) ásamt lukkudýri Dallas Cowboys á leik árið 2005.

Hæstiréttur Bandaríkjanna hefur komist að þeirri niðurstöðu að krafa sjö indíána um að ruðningsliðið Washington Redskins breyti um nafn komi of seint fram.

Indíánarnir kröfðust nafnabreytingar ruðningsliðsins með þeim rökum að heitið Washington Redskins fæli í sér aðdróttun að kynþætti þeirra. Hæstiréttur Bandaríkjanna neitaði að taka málið til umfjöllunar og féllst þar með á þann dóm áfrýjunardómstóls í Washington að krafa hinna innfæddu hefði komið allt of seint fyrir dómstóla, löngu eftir að liðinu var gefið nafn.

Þar með lýkur væntanlega að einhverju eða öllu leyti áratugalangri baráttu ýmissa samtaka amerískra indíána gegn því að nöfn indíánaættbálka séu notuð sem heiti á íþróttalið landsins svo og vísanir í litarhátt indíána, svo sem með heitinu redskins eða rauðskinnar. Talsmenn Washington Redskins hafna því alfarið að heiti liðsins sé á nokkurn hátt niðrandi í garð indíána enda væri það skelfilegt ef liðinu væri gert að breyta um nafn nú eftir alla þá fjármuni sem varið hefur verið til gerðar ýmiss konar varnings, svo sem fata og drykkjarmála, sem árituð eru nafninu.

Redskins-nafnið er upphaflega komið frá Boston og er saga þess rakin aftur til ársins 1933. Þá var þar starfrækt liðið Boston Braves en eigandi þess breytti nafninu í Boston Redskins til heiðurs yfirþjálfaranum William „Lone Star" Dietz sem var indíáni. Ekki fylgdi sögunni hvort honum hefði mislíkað nafngiftin nokkuð.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×