Innlent

Blysför til friðar haldin á Laugaveginum

Ljósberar á aðventu Gengið verður í þágu friðar á Laugavegi, Ísafirði og Akureyri á Þorláksmessukvöld. Þessi börn létu ekki sitt eftir liggja í fyrra og verða eflaust fremst í för í ár.Fréttablaðið/Stefán
Ljósberar á aðventu Gengið verður í þágu friðar á Laugavegi, Ísafirði og Akureyri á Þorláksmessukvöld. Þessi börn létu ekki sitt eftir liggja í fyrra og verða eflaust fremst í för í ár.Fréttablaðið/Stefán

Íslenskir friðarsinnar efna til blysfarar niður Laugaveginn á Þorláksmessu eins og undanfarna þrjá áratugi.

Í tilkynningu frá Íslandi-Palestínu segir að margir líti á friðargönguna sem ómissandi þátt í jólaundirbúningi fjölskyldunnar, enda taki fjöldi fólks sér hlé frá tiltekt og innkaupum til að styðja kröfuna um frið í heiminum.

Í Reykjavík stendur hópur friðarhreyfinga fyrir blysför niður Laugaveg.

Safnast verður saman á Hlemmi kl. 17.45 og leggur gangan af stað stundvíslega kl. 18.00. Í lok göngu er stoppað á Ingólfstorgi þar sem Einar Már Guðmundsson rithöfundur flytur ávarp en fundarstjóri er Helga B. Bjargardóttir. Söngfólk úr Hamrahlíðarkórum syngur.

Á Ísafirði verður lagt af stað frá Ísafjarðar­kirkju kl. 18.00 og gengið niður á Silfurtorg þar sem verður stutt dagskrá. Lúðrasveit Tónlistarskóla Ísafjarðar spilar, Elsa Þorgeirsdóttir og Þórhallur Arason flytja ávörp og endað verður á söng og ljóðalestri. Friðarkerti verða seld á staðnum.

Á Akureyri stendur Friðarframtak fyrir árlegri blysför gegn stríði. Safnast verður saman kl. 20.00 fyrir framan Samkomuhúsið í Hafnarstræti og gengið niður á Ráðhústorgið þar sem verður útifundur.

Ösp Kristjánsdóttir frá Tjörn syngur, Pétur Björgvin Þorsteinsson djákni flytur hugvekju og lesin verður upp ályktun gegn stríðunum í Afganistan og Írak.

Fundarstjóri er séra Jóna Lovísa Jónsdóttir. Að Friðarframtaki standa Samtök hernaðar­andstæðinga á Norðurlandi og Æskulýðs­samtök Þjóðkirkjunnar.- kóþ




Fleiri fréttir

Sjá meira


×