Erlent

Kosningar haldnar í janúar

Íraskir þingmenn Firyad Rawanduzi og Khaled Shwani ræða við fjölmiðla.
nordicphotos/AFP
Íraskir þingmenn Firyad Rawanduzi og Khaled Shwani ræða við fjölmiðla. nordicphotos/AFP

Íraska þingið samþykkti í gær nýja kosningalöggjöf, sem ætti að geta tryggt að fyrirhugaðar þingkosningar þar verði haldnar í janúar.

Óttast var að kosningunum þyrfti að fresta ef þingið kæmi sér ekki saman um kosningalög, sem hafa verið umdeild á þinginu mánuðum saman.

Mikil spenna ríkti á þinginu í gær meðan afgreiðsla laganna stóð yfir. Bein sjónvarpsútsending var frá þingfundinum og sjá mátti Christopher Hill, sendiherra Bandaríkjanna, á þönum milli þingflokka til að miðla málum og þrýsta á að lögin yrðu samþykkt.

Flóknasta deilumálið snerist um hvernig skiptingu þingsæta frá Kirkuk, olíuríkri borg í norðanverðu landinu, skyldi háttað. Þar búa bæði kúrdar og arabar, en kúrdar telja borgina tilheyra sér og vilja að hún sé hluti af sjálfstjórnarsvæði kúrda í norðanverðu landinu. Arabarnir vilja hins vegar engan veginn missa yfirráð sín yfir borginni, sem þeim voru fengin meðan Saddam Hussein var við völd. Saddam lét flytja tugi þúsunda kúrda nauðuga burt frá borginni til þess að arabar yrðu meirihluti íbúanna.

Kosningar í landinu eru fyrirhugaðar seinni partinn í janúar.

- gb




Fleiri fréttir

Sjá meira


×