Viðskipti innlent

Kippur í bílasölu ytra

Sala á nýjum bílum víða um heim hefur aukist upp á síðkastið.  Fréttablaðið/AP
Sala á nýjum bílum víða um heim hefur aukist upp á síðkastið. Fréttablaðið/AP

Sala á nýjum bílum hjá þýska bílaframleiðandanum Audi var 8,9 prósentum betri um allan heim í nóvember en á sama tíma í fyrra. Þetta kemur fram í gögnum fyrirtækisins í vikunni. Heildarsala á fyrstu ellefu mánuðum ársins dróst saman um 5,4 prósent milli ára.

Svipuðu máli gegnir um aðra bílaframleiðendur en Bayerische Motoren Werke, sem framleiðir bíla undir merkjum BMW, segir bílasölu hafa aukist um tólf prósent frá í fyrra.

Markaðir í Asíu hífa meðaltalið upp hjá báðum fyrirtækjum, ekki síst í Kína, en þar tvöfaldaði BMW söluna. Þá var salan góð á Indlandi, í Suður-Kóreu og í Singapore, auk Brasilíu og Kanada. Rúmlega hundrað prósenta aukning var í sölu á bílum undir merkjum Audi í Hong Kong.

Stefan Bratzel, yfirmaður bílgreinarannsókna við vísindaháskólann í Bergisch Gladbach í Þýskalandi, segir í samtali við Bloomberg-fréttastofuna, að úr gögnum um bílasölu megi lesa að neytendur séu víða að nýta sér aðgerðir stjórnvalda sem eiga að leiða til þess að keyra hagkerfi heimsins upp úr kreppunni. Þótt kippur hafi komið í söluna kunni þetta að vera tímabundið ástand og geti dregið úr bílasölu fljótlega á næsta ári. Þó megi reikna með að Kína haldi meðaltalinu uppi eitthvað lengur.- jab






Fleiri fréttir

Sjá meira


×