Innlent

Deilt um hvar Jón Ólafsson átti heima

Jón Ólafsson Hefur verið búsettur í Bretlandi meira eða minna frá 1998.Fréttablaðið/anton
Jón Ólafsson Hefur verið búsettur í Bretlandi meira eða minna frá 1998.Fréttablaðið/anton

Athafnamaðurinn Jón Ólafsson hefur stefnt Skúla Eggerti Þórðarsyni ríkisskattstjóra og Steingrími J. Sigfússyni fjármálaráðherra fyrir dóm fyrir hönd íslenska ríkisins.

Krefst Jón þess að úrskurður ríkisskattstjóra frá 2003 þess efnis að Jón skyldi greiða fullan skatt á Íslandi frá árinu 1998 verði felldur úr gildi og það viðurkennt að hann hafi frá því ári aðeins borið takmarkaða skattskyldu hérlendis.

Málið snýst um það hvar Jón var búsettur lögum samkvæmt frá árinu 1998, og hvar honum bar því að greiða skatt. „Ég flutti úr landi í september 1998 með konu og börn. Þau fóru í skóla þar, við festum kaup á húsi og ákváðum að búa í Englandi. Ég vil bara fá viðurkenningu á að svo hafi raunverulega verið,“ segir Jón.

Ríkisskattstjóri komst sem áður segir að því í desember árið 2003 að Jón ætti svokallaða heimilisfesti á Íslandi samkvæmt skattalögum og bæri því fulla skattskyldu hérlendis.

Þessum úrskurði mótmælir Jón harðlega í stefnunni. Til að eiga heimilisfesti á tilteknum stað sé nóg að hafa þar bækistöð sína, heimilismuni og svefnstað og dvelja þar að jafnaði í tómstundum. Þetta hafi átt við Bretland í hans tilfelli, enda hafi hann dvalið þar megnið úr hverju ári, börn hans hafi sótt þar skóla og þau hafi því sannarlega haft þar fasta búsetu, þótt Jón og kona hans hafi einnig átt húsnæði á Íslandi.

Jón hafði lögheimili á Íslandi fram í nóvember 2002, en fékk því þá breytt afturvirkt til 1. september 1998.

Í stefnunni er bent á að mat Ríkisskattstjóra á heimilisfesti Jóns og fjölskyldu hafi breyst eftir að ákveðið var að taka meint skattalagabrot hans til rannsóknar 2002. Árið 2000 hafi Jón verið álitinn til heimilis í Bretlandi en sú afstaða hafi síðan breyst árið 2003. Enn fremur er bent á ólíka meðhöndlun sambærilegra mála hjá embættinu, þar sem konu sem búsett var erlendis og var með börn þar í skóla var meinað að greiða skatt á Íslandi þrátt fyrir að hún ynni fyrir íslenskt fyrirtæki.

Í kjölfar úrskurðarins hefur Jóni verið gert að greiða á fjórða hundrað milljónir króna í skatta hérlendis og sótt hefur verið að honum fyrir dómi vegna meintra skattsvika. Því máli hefur verið vísað frá dómi vegna formgalla.

En hvað gerist ef Jón hefur sigur í þessu máli?

„Þá er ljóst að skattyfirvöld höfðu ekki lögsögu yfir mér þegar þau fóru í mig,“ segir Jón. Með því væri búið að opna á þann möguleika að Jón gæti fengið öllum ákvörðunum sem byggja á úrskurðinum hnekkt.

Stefnan var birt í gær og er þingfesting áætluð 7. janúar.

stigur@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×