Viðskipti innlent

Peningastefnunefnd samhljóma um síðustu vaxtaákvörðun

Peningastefnunefnd var samhljóma um síðustu vaxtaákvörðun sína að því er segir í fundargerð nefndarinnar um síðustu stýrivaxtaákvörðun hennar frá í byrjun mánaðarins.

„Sumir nefndarmenn töldu að þörf væri á nokkru peningalegu aðhaldi til að viðhalda verðgildi krónunnar. Þeir höfðu áhyggjur af því að aukin verðbólga kynni að grafa undan tiltrú manna á peningastefnunni og krónunni," segir í fundargerðinni sem birt hefur verið á vefsíðu Seðlabankans.

„Stýrivextir mættu því ekki lækka of mikið á meðan hjöðnun verðbólgu stæði, svo tiltrú manna á gjaldmiðlinum myndi ekki skaðast frekar. Nefndarmenn ræddu hvort halda bæri stýrivöxtum óbreyttum, sem og hvort hækka ætti þá lítilsháttar. Einnig var rætt um að hækka innlánsvexti eingöngu. Með hliðsjón af umræðunni lagði seðlabankastjóri til að stýrivextir og innlánsvextir yrðu óbreyttir. Sú tillaga var samþykkt samhljóða."

Ennfremur kemur fram í fundargerðinni að nefndin ræddi einnig nýlega þróun á innlendum fjármálamarkaði. Meðal þess sem fjallað var um var ofgnótt lausafjár á krónumarkaði, skilvirkni gjaldeyrishaftanna, viðskipti á innlendum gjaldeyrismarkaði og aflandsmarkaði, halli ávöxtunarferilsins og gjalddagar og útgáfa ríkisverðbréfa.

Sumir nefndarmenn lýstu yfir áhyggjum af of miklu lausafé á krónumarkaði og lögðu áherslu á nauðsyn þess að bæta lausafjárstýringu Seðlabankans. Of mikið lausafé gæti hafa átt þátt í veikingu krónunnar og því væri mikilvægt að draga umfram lausafé af markaðnum.

Allir nefndarmenn lýstu yfir áhyggjum af nýlegri gengislækkun krónunnar. Sumir þeirra töldu að það að farið hafi verið í kringum gjaldeyrishöftin gæti hafa vegið á móti afgangi á vöruskiptajöfnuði. Það, ásamt versnandi viðskiptakjörum og stórum vaxtagreiðslum í júní, hafi stuðlað að veikingu krónunnar.

Sumir nefndarmenn töldu að fyrri lækkanir stýrivaxta ætti óverulegan þátt í nýlegri gengislækkun krónunnar. Aðrir héldu því þó fram að ekki væri útilokað að umtalsverð lækkun stýrivaxta og sérstaklega stýrivaxtaákvörðunin í maí hefði haft einhver áhrif.

Því álitu nefndarmenn að ekki væri ráðlegt að slaka frekar á aðhaldi í peningamálum að svo stöddu, eða þar til krónan hefði styrkst verulega að nýju miðað við núverandi stöðu hennar.

Jafnvel væri nauðsynlegt að hækka stýrivexti ef krónan styrktist ekki á næstunni.

Þar sem þróunin í þjóðarbúskapnum hefur í grófum dráttum verið í samræmi við væntingar voru nefndarmenn sammála um að takmarkaður verðbólguþrýstingur væri til staðar og að verðbólgan myndi halda áfram að nálgast verðbólgumarkmiðið þegar gengi krónunnar næði jafnvægi.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×