Skoðun

Góðverkadagur, gott innlegg í gleðibankann

Hörður Zóphaníasson skrifar

Góðverkin eru gull í samskiptum manna. Að gera öðrum greiða - liðsinna öðrum í einhverjum vanda - er að vera góður við sjálfan sig. Þá verður til innlegg í gleðibankann, þar sem viðkomandi er bæði bankastjóri og bankaeigandi.

Það að ganga um í veröldinni vakandi og með augun opin, sjá tækifærin til að verða öðrum að líði í stóru eða smáu, og nota þau, - það gefur gull í hjartasjóðinn og styrkir stöðuna í eigin gleðibanka.

Glaður maður er góður þegn, gagnlegur samfélaginu, ekki síst á krepputímum á dimmum dögum atvinnuleysis og harðræðis. Hann er ljós í myrkrinu, afl í vonleysinu, auður í allsleysunni.

Varla mun vera til svo fátækur maður í veröldinni, að hann hafi ekki einhvern tíma gert góðverk, fundið ylinn og ánægjuna sem hverju góðverki fylgir.

Enginn maður er svo fátækur, að hann hafi ekki efni til góðverka. Góðverk getur falist í örlitlu brosi, skilningsríkum orðum eða hlýju handtaki. Góðverkið kemur báðum vel, þeim sem góðverkið þiggur og þeim sem góðverkið gerir.

Góðverkið hefur alltaf verið sterkur þáttur í sjálfsuppeldi skátahreyfingarinnar. Litli ljósálfurinn eða ylfingurinn, sem var að stíga fyrstu sporin á skátabrautinni, lofaði í heiti sínu "að gera á hverjum degi eitthvað öðrum til gleði og hjálpar". Góðverkin urðu samferða hverjum einstökum skáta á skátaferlinum frá upphafi til enda.

Í skátaheitinu er lofað að hjálpa öðrum, áminning um að góðverkin eru í fullu gildi hvar sem skátastarf fer fram.

Þess vegna hefur skátinn langa og dýrmæta reynslu af því hvernig góðverkin gefa af sér gleði, hvernig þau auðga og efla fjársjóði hjartans og hamingjunnar.

Nú vill íslenska skátahreyfingin fá þjóðina alla með sér á gönguleið góðverkanna og stuðla þannig að gleði og lífshamingju í samfélaginu. Það mun gagnast mörgum manni vel á tíma kreppu og atvinnuleysis.

Þess vegna verða nú í ár haldnir sérstakir góðverkadagar um land allt með virkri þátttöku allra landsmanna, þeir fyrstu núna 16. til 22. febrúar. Þá mun fjöldi einstaklinga og skóla, félaga og fyrirtækja, starfshópa og stofnana eiga samleið í verkefninu "Góðverk dagsins", og sýna þannig náungakærleika í verki, samferðafólki vináttu, gleðja aðra og verða um leið sjálf eða sjálfur þáttakandi í gleðinni.

Hver maður á sinn hjartasjóð, sinn gleðibanka. Hvert unnið góðverk er þar innlegg og aflgjafi. Góðverk eru gjaldmiðill gleði og samábyrgðar.

Láttu ekki þitt eftir liggja, lesandi góður. Gerðu daga góðverkanna að þínum dögum. Gríptu tækifærið til að gera góðverk, að hjálpa öðrum.

Verum öll samtaka og samstiga í að efla gleðibanka okkar og annarra með góðverkum dagsins.

Hörður Zóphaníasson, fyrrum skátaforingi og skólastjóri í Hafnarfirði






Skoðun

Sjá meira


×