Viðskipti innlent

Veltan eykst hjá flestum tegundum verslana

Velta flestra tegunda verslana jókst í maí miðað við mánuðinn þar á undan. Þetta á þó ekki við um dagvöruverslun sem líklega skýrist af því að í apríl voru páskar og því eðlilegt að salan hafi minnkað aftur í maí. Verslun á þó langt í land með að ná sömu raunveltu og fyrir ári síðan.

Þetta kemur fram í nýrri frétt frá Rannsóknarsetri verslunarinnar. Þar segir að velta í dagvöruverslun dróst saman um 6,9% á föstu verðlagi í maí miðað við sama mánuð í fyrra en jókst um 11,9% á breytilegu verðlagi.

Leiðrétt fyrir árstíðarbundnum þáttum nam samdráttur í veltu dagvöruverslana 6,6% frá sama mánuði í fyrra. Verð á dagvöru í maí hækkaði um 1,2% frá mánuðinum á undan. Á síðustu tólf mánuðum hækkaði verð á dagvöru um 20,2%.

Sala áfengis minnkaði um 3,3% í maí miðað við sama mánuð árið áður á föstu verðlagi en jókst um 23,2% á breytilegu verðlagi. Verð á áfengi hækkaði um 27,4% í maí síðastliðnum miðað við sama mánuð í fyrra samkvæmt verðmælingu Hagstofunnar. Áfengissala minnkaði að magni til í maí miðað við sama mánuði í fyrra þrátt fyrir skyndilega aukna sölu þegar tilkynnt var um hækkun áfengisgjalds í lok mánaðarins.

Fataverslun var 18,2% minni í maí á föstu verðlagi miðað við sama mánuð í fyrra en jókst um 1,3% á breytilegu verðlagi á sama tímabili. Verð á fötum hækkaði um 23,9% á einu ári.

Minni samdráttur var í skóverslun. Þannig minnkaði velta skóverslunar um 8,8% í maí á föstu verðlagi en jókst um 9,2% á breytilegu verðlagi miðað við sama mánuð í fyrra. Verð á skóm hækkaði um 19,7% á síðastliðnum 12 mánuðum.

Í maí minnkaði velta í húsgagnaverslun um 44,2% á föstu verðlagi miðað við maí í fyrra og um 30,4% á breytilegu verðlagi. Verð á húsgögnum hefur hækkað um 24,7% á síðastliðnum 12 mánuðum.

Sala á raftækjum í maí dróst saman um 40,4% á föstu verðlagi frá sama mánuði í fyrra og minnkaði um 15,8% á breytilegu verðlagi.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×