Viðskipti innlent

Wernesbræður rannsakaðir af sérstökum saksóknara

Lóa Pind Aldísardóttir. skrifar

Embætti sérstaks saksóknara er að rannsaka umfangsmiklar fjárfestingar Wernersbræðra í gegnum Sjóvá og Milestone. Sjóvá tapaði þremur komma tveimur milljörðum íslenskra króna á því að kaupa lúxusíbúðir í háhýsi skammt frá Hong Kong.

Fjárfestingafélagið Milestone sem er í eigu bræðranna Karls og Steingríms Wernerssonar keypti tryggingafélagið Sjóvá árið 2006.

Sjóvá er í dag undir forræði skilanefndar Glitnis. Umfangsmiklar fjárfestingar Milestone og Sjóvár, meðal annars með fé úr bótasjóði Sjóvár, eru nú til rannsóknar hjá embætti sérstaks saksóknara Enn hefur enginn verið kallaður til yfirheyrslu vegna rannsóknarinnar, samkvæmt heimildum fréttastofu, en hún mun óhemju flókin.

Eins og fram hefur komið í fréttum í dag hefur Sjóvá tapað 3,2 milljörðum króna á því að rifta kaupum Milestone á 68 lúxusíbúðum skammt frá Hong Kong fyrir tveimur árum. Nýr forstjóri Sjóvár, Hörður Arnarson, sagði í samtali við fréttastofu í dag að málalyktir væru varnarsigur fyrir félagið, að ná að selja fasteignir í núverandi árferði.

Fleiri fjárfestingar af þessum toga munu enn vera inni hjá Sjóvá en Hörður vildi ekki í dag veita upplýsingar um hverjar þær væru. Þær verða hins vegar skildar eftir í gamla félaginu þegar nýtt tryggingafélag verður stofnað á næstu vikum sem á eingöngu að selja tryggingar.

Ekki náðist í formann skilanefndar Glitnis í dag til að óska eftir upplýsingum um stöðu á bótasjóði Sjóvár. Forstjóri Sjóvár sagði í dag að tryggingar almennings hjá Sjóvá hefðu ekki og myndu ekkert hækka vegna þessa taps.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×